Forysta Vinstri grænna hefur verið mikið gagnrýnd síðustu misseri. Í viðtali við Svandísi Svavarsdóttur, umhverfisráðherra, vekur blaðamaður blaðsins talinu að óánægju Suðurnesjamanna en forysta VG hefur verið mikið gagnrýnd af Suðurnesjamönnum.

Maður heyrir á Suðurnesjamönnum að þeir eru ekki par ánægðir með ríkisstjórnina. Það virðist vera að þeir megi ekki reisa álver, megi ekki reisa einkasjúkrahús og ekki þjónusta einkafyrirtæki sem sinnir flughernaði. Væri kannski auðveldara að gefa þeim lista yfir hvað þeir mega gera?

„Atvinnuástandið á Suðurnesjum er auðvitað mjög alvarlegt og í raun alvarlegra en á öðrum stöðum,“ segir Svandís.

„Suðurnesjamenn hafa tekið öllum hugmyndum um atvinnuuppbyggingu fagnandi og ég hef mikinn skilning á því. Við getum svo sem rætt þessar hugmyndir út og suður. Suðurnesjamenn hafa sjálfir haft mikið frumkvæði og ég hef m.a. heimsótt Árna Sigfússon og farið með honum yfir þá atvinnukosti sem eru þar í gangi. Það er heilmikið að gerast hjá þeim og þar fer fram öflug vinna, m.a. á Keflavíkurflugvelli.“

Svandís segist þó hafa áhyggjur af því að einsleit umræða, sem að mestu hafi snúist um álver í Helguvík, hafi talað Suðurnesjamenn niður.

„Það er stundum talað eins og það sé bara ein hugmynd og bara eitt svar við þeim vanda sem þarna er,“ segir Svandís.

„Það er mjög slæmt fyrir bæjarfélag að upplifa umræðuna aftur og aftur, hvort álversuppbyggingin gengur vel eða illa og að sé upphaf og endir alls í atvinnumálum suðurfrá. Slík umræða getur orðið mjög skaðleg heimamönnum.“

En hvað sérðu fyrir þér í atvinnuuppbyggingu, t.d. á Suðurnesjum?

„Ég er nú þeirrar skoðunar að það sé hlutverk hins opinbera fyrst og fremst að skapa skilyrði fyrir hugsandi fólk. Það er ekki hlutverk hins opinbera, hvort sem er ríkis eða sveitarfélaga, að koma með borðlagðar lausnir fyrir fólk og samfélög,“ segir Svandís.

Nú talar þú eins og frjálshyggjumaður, skýtur blaðamaður inn í furðu lostinn.

„Já, það má vel vera að þarna tali ég eins og frjálshyggjumaður,“ segir Svandís og hlær.

„Það er eitt mikilvægasta verkefni hins opinbera að tryggja möguleika og skilyrði allra til virkni og þátttöku í samfélaginu og til þess þarf líka öflugt velferðar- og menntakerfi sem ekki mismunar fólki eftir efnahag. En það er líka okkar hlutverk að skapa skilyrði til að fólk geti fengið útrás fyrir sköpunargáfu sína og frumkvæði. Við gerum það með því að huga að skattaumhverfi og með því að huga að skipulagsákvörðunum. Miðstýring í atvinnumálum er mjög slæm leið. Hún er deyfandi og letjandi, fólk missir trúna á sjálft sig og það hættir að vinna úr eigin hugmyndum og eigin krafti.“

_____________________________

Nánar er rætt við Svandísi í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Þar tjáir Svandís sig meðal annars um gagnrýni á hennar störf sem umhverfisráðherra, mögulega orkunotkun og virkjanakosti, aðildarumsóknina að ESB og pólíska landslagið almennt.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .