Óhætt er að segja að mikið hafi gengið á þá 10 mánuði sem Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, hefur setið í ríkisstjórn.

Fyrir utan málin sem snúa að henni og hennar ráðuneyti hefur pólitíska landslagið verið með sérstökum hætti sl. eitt ár eða svo, þ.e. eftir bankahrun.

Aðspurð nánar um þennan tíma og pólitíska landslagið segir Svandís að þótt síðastliðnir tíu mánuðir hafi verið mjög lærdómsríkir og verkefnin verið fjölþætt hafi þetta engu að síður verið erfiður tími.

„Kúnstin er sú að missa ekki þráðinn og halda kúrs,“ segir Svandís.

„Að muna eftir því umboði sem ég hef og að verkefnið snýst um jöfnuð, umhverfi og kvenfrelsi. Raunar öll okkar verkefni. Verkefnin eru mjög fjölþætt. Við tókum við á erfiðum tíma þar sem ekki bara hafði orðið efnahagslegt hrun heldur einnig hrun á ákveðnum þáttum samfélagsins, t.d. trausti. Ég hef miklar áhyggjur af þeim þætti málsins og tel að allir þurfi að hlúa að því trausti sem er til staðar og byggja það upp þar sem á skortir.“

Þegar hugað er að ríkisstjórnarsamstarfi þeirra flokka sem nú fara með völd verður ekki hjá því komist að velta upp spurningunni um aðildarumsókn að Evrópusambandinu (ESB) sem flokkana hefur hingað til greint á um, í það minnsta þangað til komið var að stjórnarmyndunarviðræðum.

„Ég hef ekki verið á móti því að sækja um aðild því ég held að það sé í anda lýðræðis að Íslendingar fái að velja,“ segir Svandís.

„Ég er hins vegar jafnmikið þeirrar skoðunar og áður að það sé vond hugmynd að ganga í ESB. Ég tel að hagsmunum þjóðarinnar sé ekki betur borgið í ESB og tel það beinlínis vont fyrir þjóðina að fara þarna inn eins og staðan er núna.“

Þannig að þú ert hörð á því að vilja ekki ganga í ESB ?

„Já, ég er hörð á því miðað við þær forsendur sem ég hef núna.“

_____________________________

Nánar er rætt við Svandísi í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Þar tjáir Svandís sig meðal annars um gagnrýni á hennar störf sem umhverfisráðherra, mögulega orkunotkun og virkjanakosti, aðildarumsóknina að ESB og pólíska landslagið almennt.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .