Svandís Svavarsdóttir, oddviti VG í borgarstjórn, segist vera tilbúin til að leita sátta í máli hennar gegn OR, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag. Svandís lagði fram kæru um miðjan október vegna eigendafundar sem haldinn var þann 3. október s.l. Vildi Svandís að fundurinn yrði úrskurðaður ógildur og þar með þær ákvarðanir sem á fundinum voru teknar. Fram kemur í máli Svandísar að hún telji að sátt í málinu muni snúast um að eigendafundurinn yrði ógildur.

Þessi ákvörðun Svandísar kemur í framhaldi af því að borgarráð hefur samþykkt að leita sátta í málinu þar sem borgarráð telur sig ekki lengur hafa hagsmuni af dómsúrskurði málsins.

Svandís segir að jafnvel þótt sátt náist í málinu hefði hún engu að síður viljað fá dómsúrskurð varðandi lögmæti eigendafundarins. Hún telur að það sé grundvallaratriði að fá á hreint stöðu almennings gagnvart kerfinu.

„Ef sáttin hins vegar felur í sér viðurkenningu á því að eigendafundurinn hafi verið ólögmætur þá er Orkuveita Reykjavíkur búin að fallast á það og þar með að slíkt verði ekki endurtekið. Ég lít svo á að það sé fullnaðarsigur fyrir mig þegar búið er að taka í raun og veru allar ákvarðanir í málinu til baka. Þá er í raun og veru ekkert eftir af minni kröfu,“ sagði Svandís í Morgunblaðinu í dag

Munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu OR málinu er ráðgerður í Héraðsdómi á morgun.