Svanhildur Konráðsdóttir er nýr stjórnarformaður Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, UNICEF, en hún hefur setið í stjórn samtakanna í þrjú ár.

Tilkynnt var um þetta á aðalfundi UNICEF á Íslandi í Þjóðminjasafninu í dag. Hún tekur við af Þórunni Sigurðardóttur sem setið hefur í stjórn UNICEF frá stofnun samtakanna hér á landi og verið stjórnarformaður síðustu tvö ár. Jóna Hrönn Bolladóttir, sóknarprestur í Garðasókn, tekur sæti í stjórn UNICEF í stað Þórunnar. Svanhildur er sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar.

Á fundinum kynnti Jónína Einarsdóttir, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands, nýja skýrslu um mansal á börnum í Gíneu-Bissá, en rannsókn á þessum vanda var gerð að ósk UNICEF í Gíneu-Bissá og styrkt af UNICEF á Íslandi. Höfundar skýrslunnar eru auk Jónínu þeir Geir Gunnlaugsson landlæknir, Gunnlaugur Geirsson laganemi og Hamadou Boiro mannfræðingur.

Að því er fram kemur í fréttatilkynningu námu framlög Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna á Íslandi til hjálparstarfs á síðasta ári námu tæpri 241 milljón króna, þar af fóru yfir 114 milljónir til valinna verkefna í löndum eins og Austur-Kongó, Mósambík, Síerra Leóne og til neyðarhjálpar á hernumdu svæðum Palestínu.  Tæpar 127 milljónir voru sendar til reglubundinna verkefna UNICEF, sem þýðir að UNICEF útdeilir þeim eftir því hvar þörfin er mest. Skiptir mestu um framlag heimsforeldra, mánaðarlegra styrktaraðila UNICEF, en 64% af heildartekjum kom frá þeim.