Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir, fjárfestir sem var ásamt Guðmundi Erni Þórðarsyni manni sínum aðaleigendur Skeljungs á sínum tíma, hyggst ekki sækjast eftir stjórn Icelandair Group heldur í stjórn VÍS.

Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag, en áður hafði hún sagt í blaðinu að hún væri að íhuga framboð til stjórnar Icelandair.

Þau hjónin eiga samanlagt um 8% hlut í VÍS, en Guðmundur sat áður í stjórn félagsins en dró framboð sitt til baka á síðasta aðalfundi í mars í fyrra.

Eiga einnig í Kviku líkt og VÍS

Hjónin eiga einnig 8% hlut í Kviku í gegnum félag sitt K2B fjárfestingar, en VÍS keypti í byrjun ársins um 22% hlut í bankanum.

VÍS skilaði á árinu 2016 hagnaði sem nam 1.469 milljónum króna sem er lækkun frá árinu 2015 þegar hagnaðurinn var 2.076 milljónir, en hlutabréfaverð í félaginu hefur hækkað um 6,6% það sem af er árinu.

Í dag er í stjórn VÍS þau Herdís Dröfn Fjeldsted stjórnarformaður, Jostein Sorvoll, Helga Hlín Hákonardóttir og Reynir Finndal Grétarsson. Benedikt Gíslason sagði sig svo úr stjórninni í nóvember 2016 þegar hann fór í stjórn Kaupþings.