Skuldaafskriftir illa rekinna fyrirtækja á fjarskiptamarkaði eru mjög óréttlátar gagnvart samkeppnisaðilum þeirra, segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans.

Óréttlæti að lækka skuldir illa rekinna fyrirtækja

Teymi, sem á og rekur Vodafone, fór í gegnum nauðasamninga snemma á árinu 2009. Í þeim fólst meðal annars að skuldir Vodafone lækkuðu um 40%.  Sævar telur svona aðgerðir fela í sér mikið óréttlæti gagnvart öðrum aðilum á fjarskiptamarkaðinum.

„Þetta er íslenskur veruleiki í dag. Það þarf að bjarga fyrirtækjum sem var illa stjórnað og voru illa rekin. Það er búið að koma þangað inn miklu fé á kostnað skattborgaranna. Og það er mjög skapraunandi fyrir mig og starfsfólk okkar. Með svona inngripum er markaðinum gjörbreytt í einum vettvangi. Teymi var þó sett ákveðin samkeppnisskilyrði samhliða þessu og við treystum því að þeim verði fylgt eftir í hvívetna.“

Leyfa markaðinum ekki að leiðrétta sig

„Almennt séð eru menn óþarflega spéhræddir við að láta fyrirtæki fara í þrot á Íslandi. Það er sú aðferð sem virkað hefur best á markaði um árabil og menn eiga ekki að þurfa að óttast það vegna þess að út frá því verða líka til rekstrarhæfar einingar ef fyrirtækin hafa yfir höfuð einhvern rekstrarlegan grundvöll.“

Að mati Sævars sýnir þessi nálgun bankanna ákveðna vantrú á markaðinn. Í stað þess að leyfa honum að leiðrétta sig sjálfkrafa sé verið að grípa inn í hann með handafli. „Markaðurinn á geta leiðrétt sig sjálfur. Það er aftur á móti ekki sú leið sem hefur verið farin hérlendis.“

__________________________

Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er að finna ítarlegt viðtal við Sævar Frey. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .