Síminn hefur tapað mikilli markaðshlutdeild á undanförnum árum, tapaði tæpum tíu milljörðum króna á síðasta ári og sagði upp fjölda starfsmanna fyrir skemmstu.

Forstjóri Símans, Sævar Freyr Þráinsson, segir að það þrífist jákvæð mismunun á íslenskum fjarskiptamarkaði. Síminn eigi þó góð vaxtatækifæri sem hann muni nýta sér.

Jákvæð mismunun þrífst

Síminn fór af stað með nýtt vörumerki, Ring, í lok árs 2009 til að reyna að mæta þeirri nýju samkeppni sem komin var á farsímamarkaðinn. Ring er frelsisþjónusta sem er sérsniðin að þörfum ungs fólks.

Sævar segir Ring þegar hafa náð ákveðnum árangri. Samkeppnin sé þó mjög hörð enda er samkeppnisaðilinn, Nova, nánast að gefa þjónustu.

„Það sem er í gangi er einfaldlega það sem tíðkast allstaðar í Evrópu. Opinberar eftirlitsstofnanir hafa komið á svokallaðri jákvæðri mismunun. Í því felst að Nova getur rukkað Símann umtalsvert meira fyrir símtöl sem koma frá viðskiptavinum Símans inn í þeirra kerfi, heldur en Síminn getur rukkað Nova fyrir símtöl sem koma frá viðskiptavinum Nova. Þessi mismunun er leið eftirlitsstofnanna til að greiða fyrir aukinni samkeppni og hjálpa nýjum aðilum á markaði. Nova hefur því búið til viðskiptamódel sem gengur út á að fá inn viðskiptavini.“

Verður afnumin í skrefum

Sú mismunun sem ný fyrirtæki á fjarskiptamarkaði fá að njóta er þó tímabundin og verður afnumin í skrefum. Fyrsta skrefið í þá átt var stigið í byrjun september. Að sögn Sævars verður það næsta stigið 1. janúar næstkomandi.

„Síðasta skrefið verður síðan tekið 1. janúar 2012 og þar með verður þessari mismunun alveg lokið. Fyrirtæki fá þessa mismunun einungis í ákveðinn tíma, en svo er líka fylgst með hvaða árangri þau ná og metið út frá því líka. Þá þarf viðskiptamódel þeirra aðila sem notið hafa hennar að taka breytingum og þá verður samkeppnisstaða okkar á milli jafnari.“

__________________________

Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er að finna ítarlegt viðtal við Sævar Frey. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .