Síminn sagði upp 29 starfsmönnum í lok október og tilkynnti um nýtt skipulag þar sem gert er ráð fyrir sameiningu deilda. Á sama tíma var 11 starfsmönnum Skipta, móðurfélags Símans, sagt upp störfum.

Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans, segir að uppsagnirnar hafi verið algjörlega nauðsynlegar. „Við höfum verið að hagræða í rekstrinum frá árinu 2008 þegar við sáum að samdráttur var framundan í íslensku efnahagslífi og ljóst var að við þyrftum að ná meiri hagkvæmni út úr rekstri Símans. Strax þá fórum við í einhverjar uppsagnir. Frá og með hruninu höfum við hins vegar ekki verið að segja upp fólki. Það var meðvituð ákvörðun. Við töldum það hið rétta í stöðunni að reyna að standa vörð um störf fólks í lengstu lög. Í stað þess tóku allir starfsmenn sem voru með 350 þúsund krónur eða meira í laun á mánuði á sig launalækkun.

Við fórum líka í allskyns aðrar aðhaldsaðgerðir. Við endurhönnuðum ferlana okkar, endursömdum við birgja og fækkuðum kerfunum á bak við fjarskiptareksturinn. Nú erum við með eitt tæknisvið í stað þess að vera með sérstakt svið fyrir farsíma, talsíma og gagnaflutning áður. Við höfum því náð að hagræða töluvert. En því miður hafa tekjurnar líka minnkað hraðar en gjöldin eftir hrun.“

___________________________

Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er að finna ítarlegt viðtal við Sævar Frey. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .