Sævar Óli Hjörvarsson, einn af eigendum verktakafyrirtækisins KNH á Ísafirði sem segir nú upp 60 af 85 starfsmönnum, segir dapurt að horfa upp á aðgerðarleysi stjórnvalda. Bendir hann á fyrirhugaðar stjórnvaldsaðgerðir í formi aukinnar skattpíningar á almenning og álögur á fyrirtæki ásamt algjöru verkefnafrosti, séu að stöðva allan atvinnurekstur.

Engar framkvæmdir - allt stopp

„Ef það koma ekki til neinar nýjar framkvæmdir þá verður þetta allt stopp. Ég trúi því ekki að menn reyni ekki að setja þetta í gang á næsta ári. Ætli menn hins vegar að stoppa allar framkvæmdir, þá verður hér engin vinna og menn geta allt eins lokað landinu. Það verður að gera eitthvað fyrir fólkið og fá veltuna í gang. Ef það er engin velta, þá verður heldur engin vinna og þá fer allt á hausinn.

Hver á að borga Icesave?

Það eina sem ríkisstjórnin hugsar um er að borga Icesave. Ef engin atvinna verður í landinu og allir atvinnulausir, hver á þá að borga Icesave og skattana? Svo eru menn að rífast um fæðingarorlof. Hvaða bull er þetta! Ef það eru ekki til peningar fyrir því þá er verður bara að hætta með það, það er ekkert flókið. Menn verða að fara að hugsa og reyna að halda atvinnulífinu gangandi," segir Sævar Óli Hjörvarsson.