Skráning á hlut í Síldarvinnslunnar í Kauphöllina er tilraun til að „svara kalli tímans um dreifðara eignarhald í sjávarútvegi“, er haft eftir Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóra Samherja, í viðtali við Markaðinn . Samherji er stærsti hluthafi Síldarvinnslunnar en eignarhluturinn nemur tæplega 45%.

Þorsteinn segir að að ekki liggi fyrir hversu stóran hlut Samherji muni selja. Hann segir einnig að ekki sé stefnt að því að auka hlutafé Síldarvinnslunnar.

Brim er í dag eina sjávarútvegsfyrirtækið sem er skráð í Kauphöllina en þau voru nítján talsins á sínum tíma. Þorsteinn segir að mörg þessara fyrirtækja hafi ekki átt erindi á markað sökum stærðar þeirra. Einnig sé sjávarútvegurinn sveiflukennd grein sem geti dregið úr áhuga fjárfesta.

Þorsteinn segir að verð á veiðiheimildum hafi verið orðið of hátt upp úr aldamótum þar sem aðgangur að fjármagni hafi verið orðinn of auðveldur. „Rekstur útgerðarinnar stóð ekki undir þessum verðum á veiðiheimildum og eigið fé greinarinnar þynntist út,“ segir hann og bætir við að sterkt gengi krónunnar hafi leitt til slakrar rekstrarafkomu á þessum árum.

Sjávarútvegsfyrirtækin séu þó öflugri í dag og því gæti áhugi fjárfesta hafa aukist. Þorsteinn segir skynsamlegt að kanna áhuga meðal lífeyrissjóða og annarra fjárfesta að taka þátt í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja.

Þorsteinn segir stefnuna hjá Síldarvinnslunni alltaf hafa verið að halda skuldum lágum vegna mikilla sveiflna í uppsjávartegundum. Í lok árs 2019 voru nettóskuldir fyrirtækisins rúmlega einn milljarður króna samanborið við 6,5 milljarða króna hagnað fyrir skatta. Hann segir Síldarvinnsluna hafa þó náð betra jafnvægi milli uppsjávar- og bolfisktegunda með yfirtökum að undanförnu og sé því orðinn áhugaverður fjárfestingarkostur.

Landsbankinn stýrir skráningarferli Síldarvinnslunnar og munu kynningar vegna sölunnar fara af stað bráðlega. Þorsteinn vildi ekki tjá sig um verðmat eða verðlagningu á hlutabréfum Síldarvinnslunnar.

„Bankamennirnir sjá um það. Ég velti mér ekki mikið upp úr því hver verðmiðinn er á þeim fyrirtækjum sem ég kem að. Ég hugsa þetta ekki á þennan hátt. Ég hef fyrst og fremst áhuga á því að fyrirtækin fjárfesti í eigin rekstri þannig að skip, vinnslur, tækni og búnaður séu í fremstu röð hverju sinni til þess að geta mætt síbreytilegum kröfum viðskiptavina sinna.

Á sama tíma legg ég höfuðáherslu á að fyrirtækin standi við sínar skuldbindingar gagnvart viðskiptavinum, lánardrottnum og starfsmönnum. Við hjá Samherja fórum í gegnum hrunið 2008, stóðum við allar okkar skuldbindingar upp á krónu og fengum enga afslætti af lánum eða endurreikning á vöxtum,“ sagði Þorsteinn Már í viðtali Markaðarins.