Samkvæmt spákorti Volcanic Ash Advisory Centers (VAAC) er útlit fyrir flug í Evrópu ekki glæsilegt í fyrramálið vegna ösku í háloftunum frá Eyjafjallajökli. Það er helst að Norður-Noregur, Norður-Svíþjóð og stór hluti Finnlands sleppi. Einnig stærsti hluti Írlands, Skotlands og Norður- England. Að öðru leyti verður stærsti hluti Evrópu á hættusvæði. Slíkt ástand hefur aldrei sést áður á friðartímum síðan saga flugsins hófst í heiminum, en allir alþjóðaflugvellir á Íslandi verða þó utan hættusvæðis.

VAAC vaktar eldgos á jörðinni með tilliti til hættu fyrir flugumferð. Suðurmörk rauðu hættulínunnar samkvæmt korti VAAC fyrir flug í fyrramálið liggur um sunnanvert Frakkland og nokkurn veginn beint í austur yfir nyrsta hluta Ítalíu og austur undir norðurströnd Svartahafs. Þaðan liggur jaðarinn í norður og síðan í norðaustur yfir Rússland en önnur tota nær svo suður fyrir Rússland nokkru austar.

Askan mun dreifast æ lengra í austur og norðaustur og mun ná norður undir syðsta hluta Svalbarða og teygir sig í austur yfir stærstan hluta Nowaja Semlja úti fyrir norðurströnd Rússlands.