Nú í vikunni kom einn af æðstu stjórnendum fjármálaráðuneytisins í Svartfjallalandi hingað til lands til þess að kynna sér stjórn efnahags- og ríkisfjármála hér á landi. Svartfjallaland er í ríkjasambandi við Serbíu og eru íbúar Svartfjallalands um 650 þúsund talsins. Ríkin eru nánast að öllu leyti aðskilin og eru þau t.d. með sitt hvorn gjaldmiðilinn.

Líkur eru taldar á að Serbía og Svartfjallaland muni skilja að skiptum innan tíðar, jafnvel á næsta ári. Svartfellingar leggja nú mikla áherslu á að styrkja innviði samfélagsins. Vatnsorka er helsti orkugjafi landsins. Í landinu eru nokkrar álverksmiðjur og stendur álútflutningur að baki stórum hluta útflutningstekna.

Á síðustu árum hafa stjórnvöld gert átak í markaðsvæðingu. Einkavæðing álfyrirtækja er hafin og framundan er einkavæðing á fjarskiptamarkaði.
Efnahagsþróun á Íslandi hefur vakið athygli stjórnvalda í Svartfjallalandi og
hefur fjármálaráðherra landsins lýst áhuga á að fjármálaráðuneytið hér á landi miðli Svartfellingum af reynslu sinni og þekkingu á stjórnun ríkisfjármála. Í nýafstaðinni heimsókn var m.a. rætt um efnahagsmál almennt, opinber útgjöld, fjárlagagerð og framkvæmd fjárlaga, skattamál og framsetningu ríkis- og þjóðhagsreikninga.