Í Bandaríkjunum hefst hefðbundin jólaverslun á föstudeginum eftir þakkargjörðarhátíðina þar í landi sem er í lok þessarar viku.

„Við byrjum að bjóða frábær tilboð á mánudegi og bætum svo við ný tilboð daglega þar til hinn stóri dagur Svartur Fössari rennur upp,“ segir Óttar Örn Sigurbergsson Innkaupastjóri hjá Elko í samtali við Viðskiptablaðið.

„Viðskiptavinir mega eiga von á alls konar afsláttum og þá í vinsælustu vöruflokkunum . Elko vill auðvitað ekkert gefa upp en ítrekar fyrir viðskiptavini að fylgjast með því hver veit hvað mun leynast á Svörtum Fössara. Við getum þó sagt að fjöldi tilboða hlaupa á hundruðum.“

Salan meira en tvöfaldaðist í fyrra

Elko hefur einu sinni áður tekið þátt í því að bjóða sérstök afsláttarkjör á þessum degi en hann segir reynsluna af því hafa verið frábæra.

„Salan milli ára þessa vikuna árið 2015 var meira en tvöföld og nutu viðskiptavinir góðs af mun lægra verði,“ segir Óttar Örn.

„Þessu tengt má nefna skemmtilega reynslusögu frá því í fyrra þegar Playstation leikjatölvan var á tilboði og voru 100 stykki í boði sem öll voru sett á vörubretti inn í verslun. Þegar búðin opnaði kl. 8.00 var löng biðröð út á bílaplan.

Viðskiptavinirnir hlupu inn og myndaðist hópur fyrir framan Playstation brettið svo ekki sást í neitt. Eftir nokkrar sekúndur hvarf hópurinn, leikjatölvan og vörubrettið, eins og fyrir hreina töfra. Það voru kátir viðskiptavinir sem fóru út þann daginn.“

Hugtakið kemur til af mikilli umferð

Óttar Örn segir að rekja megi aftur til ársins 1932 að litið sé á daginn sem upphafsdag jólaverslunar í Bandaríkjunum.

„Þetta er dagurinn á eftir Þakkagjörðarhátíðinni og voru í þá daga margir ríkisstarfsmenn í fríi sem þeir þá nýttu í jólagjafainnkaupin. Hugtakið BlackFriday er talið hafa komið síðar sem þá tengdist þeirri miklu bílaumferð og fótaferð á deginum og var notað til að lýsa ástandinu,“ segir Óttar Örn.

„Væntingar Elko er að skapa stemmningu á markaðinum með flottum tilboðum. Elko metur að þetta framtak sé mjög jákvætt til að skapa eftirvæntingu og spenning og gerir ráð fyrir að taka þátt að ári.“

Vildu íslenska nafnið

Óttar Örn segir að þeim hafi borist ábending í fyrra að nota ekki erlent tungumál í auglýsingum á deginum og því hafi þeir viljað íslenska nafnið.

„Svartur Fössari heitir því dagurinn í Elko og að okkur vitandi var orðið „Fössari“ kosið orð ársins 2015 af lesendum RÚV.is,“ segir Óttar Örn sem segir daginn vera í undirbúningi mánuðum saman.

„Þetta kostar jú allt peninga en til lengri tíma þá tel ég þetta vera sniðugt bæði til að leyfa viðskiptavinum að njóta flottra tilboða, kynna jólavörur til leiks og þá einnig að vekja vitund á Elko sem betri valkost í hinum stóra heimi raftækjanna.“

Verðlækkanir eftir harðar samningaviðræður

Óttar segir fyrirtækið ekki hafa tekið eftir því að afslættirnir á deginum hefðu haft mikil áhrif á jólatraffíkina, en hann segir afslættina ekki koma til vegna þess að álagningin sé venjulega svo há.

„Það er alls ekki svo enda hefur álagning lækkað í Elko síðustu ár sem sést beint í ársreikningum,“ segir Óttar Örn.

„Harðar samningaviðræður hafa verið í gangi við dreifingaraðila, framleiðendur og aðra samstarfsaðila. Verðlækkanir fara því mikið eftir því hvernig samningar takast og hefur áhuginn sem betur fer verið mikill svo að vel hefur gengið. Á móti þá lækkar Elko einnig sína álagningu til að gera  tilboðin eins flott og hægt er“