Það er til marks um sérkennilegar hreyfingar og óróleika á mörkuðum hvernig þróunin hefur verið á skuldabréfamarkaðnum í Evrópu. Bilið á milli þýskra ríkisskuldabréfa og skuldabréfa annarra ríkja sem eiga aðild að evrusvæðinu hefur aukist mikið undanfarið.

Misræmið er þvert á flestar hagfræðikenningar um virkni sameiginlegra myntsvæða og kann annað hvort að endurspegla áhyggjur fjárfesta yfir ólíkri stöðu mála í hagkerfum Evrópusambandsins ellegar vera kraftbirtingarform óskilvirks markaðar í kjölfar lausafjárþurrðar.

Bilið á milli ítalskra ríkisskuldabréfa til tíu ára og þýskra náði hæstu hæðum í gær og fór í 57 punkta. Ávöxtunarkrafan á þýsk ríkisskuldabréf til tíu ára var 3,84% á meðan að hún var 4,41% á sambærileg ítölsk bréf.

Breska dagblaðið Daily Telegraph segir að ítalska fjármálaráðuneytið hafi gripið inn í seint á þriðjudag með því að hreinsa upp markaðinn með tíu ára ríkisskuldabréf. Slík aðgerð vekur eftirtekt enda virðast óvenjulegir tímar kalla á óhefðbundin úrræði:

Daily Telegraph vísar í ítalska viðskiptablaðið Il Sole sem líkir ástandinu á skuldabréfamarkaðnum við hina dramatísku atburðarrás sem hófst þegar LTCM vogunarsjóðurinn neyddist til þess að losa sig við stórar stöður á Ítalíu og Spáni árið 1998 þannig að úr varð kerfislægt hrun á mörkuðum.

Nánar er fjallað um alþjóðlega fjármálamarkaði í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .