Væntingarvísitala Gallups mælist 66,3 stig og lækkar hún um 12,2 stig frá í júlí. Greining Íslandsbanka bendir á að miðað við þetta hafi væntingar Íslendinga til efnahags og atvinnulífs ekki verið minni síðan í mars í fyrra.

Væntingarvísitalan var birt í morgun. Hún var um 100 stig í maí og júní sem skilar því að álíka margir svarendur voru bjartsýnir og svartsýnir á ástand og horfur í íslensku efnahagslífi. Nú virðist sem svartsýnin sé ráðandi á ný.

Bjartsýni í aðdraganda kosninga

Greining Íslandsbanka segir í Morgunkorni sínu í dag meginskýringuna liggja í mikilli lækkun væntinga til ástandsins í efnahags- og atvinnumálum eftir sex mánuði. Undirvísitalan lækkað um rúm 20 stig og er hún nú 86,3 stig. Hún hefur ekki farið undir 100 stigin fyrr á þessu ári. Þá lækka undirvísitölur fyrir mat á efnahagslífinu og atvinnuástandi einnig nokkuð, en vísitalan fyrir mat á núverandi ástandi helst óbreytt milli mánaða. Þá bendir Greiningin á að Væntingarvísitalan taki gjarnan sveiflur í kringum þingkosningar og myndun nýrrar ríkisstjórnar. Þannig hækki vísitalan strax í kjölfar kosninga en lækkar eftir það.

„Hreyfingin nú er hins vegar stærri en raunin hefur verið á fyrri kosningaárum. Hugsanlegt er að væntingar um bættan hag heimilanna fljótlega í kjölfar kosninga hafi verið umtalsverðar þetta árið, og að nýleg ummæli stjórnvalda um að aðgerðir á borð við skuldaniðurfærslu muni taka nokkurn tíma hafi slegið verulega á þessar væntingar,“ segir í Morgunkorninu sem bætir við að umfjöllun um lakari horfur í ríkisfjármálum næsta kastið hafi svo ekki verið til þess fallin að auka á bjartsýnina auk þess sem ekki sé loku fyrir það skotið að slæmt árferði sunnan- og vestanlands þetta sumarið leggist þungt á þjóðarsálina.

Bent er á að skipting svara er nokkuð athyglisverð. Þeir sem hafi lágar tekjur séu býsna svartsýnir í svörum, en talsvert dragi úr svartsýninni eftir því sem tekjur hækka.