Lítillega dró úr væntingum neytenda á þróun í efnahags- og atvinnulífi þjóðarinnar í mánuðinum en væntingavísitala Capacent Gallup lækkaði um rúm tvö stig á milli mánaða. Vísitalan mælist nú 87 stig. Greining Íslandsbanka segir nokkru muna um það að mælingin var gerð í fyrri hluta mánaðar. Búast hefði mátt við annarri niðurstöðu ef könnunin hefði verið framkvæmd nokkrum dögum síðar þegar loforð stjórnmálaflokka voru komnir fram. Loforðin hefðu að öllu jöfnu átt að kynda undir væntingar landsmanna um bjartari framtíð, að sögn greiningar Íslandsbanka.

Greiningin bendir engu að síður á það í Morgunkorni sínu að þrátt fyrir lítils háttar lækkun vísitölunnar þá sé þetta þriðja hæsta gildi hennar frá í apríl árið 2008. Ljóst sé að íslenskir neytendur eru talsvert bjartsýnni nú á efnahags- og atvinnulíf þjóðarinnar en í fyrra en þá stóð vísitalan í rúmu 71 stigi.

Reyndar kemur fram að þrátt fyrir þetta eru neytendur ekki bjartsýnir þar sem væntingavísitalan er enn undir 100 stigum. Þegar vísitalan fer yfir 100 stigin eru fleiri bjartsýnni en svartsýnir. Það hefur ekki sést síðan í febrúar árið 2008.