Sjóðsstjórar helstu fjárfestingarsjóða heims eru í vaxandi mæli auka vigt óbundinna innlána í eignasöfnum sínum. Þetta kemur fram í mánaðarlegri könnun sem Bank of America stendur fyrir og fjárfestar líta gjarnan á sem loftvog á markaðinn.

Fram kemur í umfjöllun Financial Times að hlutfall innlána og reiðufé í eignasöfnum sjóðanna sem taka þátt í könnuninni hafi farið í 6,1% í könnuninni sem gerð var fyrr í maímánuði og ekki verið hærra síðan að hryðjuverkaárásin var gerð á Bandaríkin í september 2001. Það eru 288 sjóðir sem taka þátt í könnuninni og nema heildareignir þeirra um 833 milljörðum Bandaríkjadala.

Eðli málsins samkvæmt færa fjárfestar sig í traustar eignir á borð við reiðufé og innlán þegar blikur eru á lofti á mörkuðum. Fram kemur í frétt Financial Times að svartsýni fjárfesta eykst nú hratt og að 13% væru með undirvigt á fjárfestingar í verðbréfum samanborið við 6% sem voru yfirvigtaðir í þeim eignaflokki í apríl.