Svartsýni almennings virðist nú vera á undanhaldi samkvæmt væntingavísitölu Gallup sem birt var í morgun en vísitalan hækkar um 13 stig í ágúst frá fyrri mánuði eftir samfellda lækkun undanfarna þrjá mánuði.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis.

Væntingavísitalan mælist nú 74,1 stig, en mælist hún undir 100 eru fleiri svarendur neikvæðir en jákvæðir á stöðu og horfur í efnahagslífinu.

Í Morgunkorni kemur fram að allar undirvísitölur Væntingavísitölunnar hækka frá fyrri mánuði sem bendir til þess að væntingar neytenda til núverandi ástands í efnahags-og atvinnumálum jafnt og ástandsins eftir sex mánuði eru nú betri en áður.

Væntingar til næstu sex mánaða aukast þó mun meira en sem nemur mati á núverandi ástandi, eða um 18 stig í fyrra tilvikinu á móti tæpum 5 stigum í því seinna.

„Er það athyglisvert í ljósi þess að nýlegar þjóðhagsspár gera ráð fyrir samdrætti í innlendri eftirspurn og auknu atvinnuleysi á næsta ári,“ segir Greining Glitnis í Morgunkorni.

Allar undirvísitölur væntingavísitölunnar eru eftir sem áður talsvert undir 100 stiga gildinu sem markar skilin milli svartsýni og bjartsýni.

Er botninum náð?

Þá kemur fram að í júlí náði Væntingavísitalan sínu lægsta gildi frá því að Gallup hóf að mæla væntingar neytenda árið 2001.

„Enn er þó of snemmt að segja til um hvort botninum sé náð í þessum efnum þar sem vísitalan hefur tilhneigingu til að hækka í ágústmánuði,“ segir Greining Glitnis.

„Þá verður að hafa í huga að enn er vísitalan mjög lág og hefur til að mynda aldrei áður mælst jafn lág í ágúst og nú en vísitalan er rúmlega 40% lægri nú en á sama tíma fyrir ári síðan. Niðurstöður mælinga næstu mánaða munu skera úr um hvort að svartsýnin sé að hörfa til langframa en mögulegt er að þættir á borð við minni sveiflur í gengi krónunnar og bjartari horfur á íbúðamarkaði sé nú að auka bjartsýni þjóðarinnar.“