Væntingarvísitala Capacent Gallup mælist nú 80,7 stig og lækkar hún um eitt stig á milli mánaða. Vísitalan mælir væntingar neytenda til efnahags- og atvinnulífsins. Þegar vísitalan er undir 100 stigum eru fleiri neytendur svartsýnni en þeir sem eru bjartsýnir.

Niðurstaðan er þvert á það sem Greining Íslandsbanka gerði ráð fyrir í Morgunkorni sínu í gær. Þá var búist við því að brúnin myndi lyftast á landsmönnum eftir að EFTA-dómstóllinn sýknaði stjórnvöld í Icesave-málinu seint í síðasta mánuði.

Greining Íslandsbanka segir í dag:

„Þessi lækkun kemur í kjölfar þess að væntingar neytenda jukust mikið í janúar eða um rúmlega 12 stig. Reyndar kemur það talsvert á óvart að væntingar neytenda skuli minnka nú en yfirleitt fer bjartsýni vaxandi milli þessa tveggja mánaða. Þá var niðurstaða EFTA dómstólsins í hinni þrálátu Icesave deilu birt í lok janúar og vann Ísland fullnaðarsigur í málinu. Það virðist þó hafa haft skammvinn áhrif á bjartsýni landans sem þrátt fyrir þessi góðu tíðindi er svartsýnni nú en í fyrri mánuði.“

Bjartsýni næstu sex mánuði

Greiningardeildin segir virðast vera að aðrir þættir vegi þyngra nú í febrúar og vísar til þess að helst sé það mat á atvinnuástandi sem dragi vísitöluna niður. Þannig töldu 36% aðspurðra nú að atvinnumöguleikar væru litlir og 9,3% töldu atvinnumöguleika mikla.

Þessu til viðbótar dregur úr væntingum næstu sex mánuði um eitt stig. Vísitalan stendur í 114 ,3 stigum og er það annar mánuðurinn í röð sem hún stendur yfir þeim mrökum. Það bendir til að fleiri eru jákvæðir en neikvæðir á þróun mála næsta hálfa árið.