Fjárfestar hafa tekið frekar illa í endurkjör Barack Obama í forsetaslagnum í Bandaríkjunum í nótt. Áhrifin hafa sést einkar skýrt á hlutabréfavísitölum á bandarískum mörkuðum. Nasdaq-vísitalan hefur fallið um 2,5%, S&P 500-vísitalan hefur fallið um 2,47% og Dow Jones-vísitalan farið niður um 2,49%. Endurkjörið er reyndar ekki eina ástæðan fyrir lækkunarhrinunni í dag. Inn í málið blandast frekar neikvæð hagspá frá evrópska seðlabankanum sem bendir til að skuldakreppan á evrusvæðinu muni dragast á langinn.

Dow Jones-vísitalan hefur ekki lækkað eins mikið á einum degi á þessu ári, að því er fram kemur á vef USA Today .

Blaðið hefur eftir bandarískum fjárfestum að í ljósi kosningasigurs Obama óttist þeir að allt annað en sáttahugur muni ríkja á þinginu enda hafi Repúblikanar tryggt meirihluta í fulltrúadeild bandaríska þingsins. Af þeim sökum geti reynst erfitt að koma málum í gegnum þingið, ekki síst þeim mikilvægustu á borð við það hvað skuli gera til að koma í veg fyrir að Bandaríkin rambi fram af fjárlagaþverhnípinu svokallaða eftir næstu áramót þegar boðaðar skattahækkanir taka gildi