Væntingavísitala Capacent Gallup sem birt var í morgun stóð í 24,9 stigum í júlí og hækkaði um 4 stig frá fyrri mánuði.

Í Morgunkorni Íslandsbanka kemur fram að vísitalan hefur verið að meðaltali 27 stig frá því í nóvember í fyrra eða frá hruni bankanna, og er mælingin í júlí því aðeins undir meðaltalinu þennan tíma.

Þá segir Greinin Íslandsbanka að breytingin sé óveruleg og svartsýnin enn allsráðandi hjá íslenskum neytendum sem hafa verið afar svartsýnir á efnahags- og atvinnuástandið allan tíma frá hruni bankanna.

89% telja efnahagsástandið slæmt

Fram kemur að undanfarna 17 mánuði eða allt frá mars á síðasta ári hefur gildi vístölunnar verið undir 100 stigum sem  þýðir að fleiri svarendur eru neikvæðir en jákvæðir. Mesta bjartsýni sem mælst hefur á þennan mælikvarða meðal neytenda hér á landi mældist í maí  2007 þegar vísitalan var 155 stig. Þá fór lítið fyrir svartsýni meðal neytenda.

„Nú er hinsvegar allt önnur staða uppi í efnahagsmálum þjóðarinnar, kaupmáttur lækkandi, atvinnuleysi mikið, verðbólgan há, húsnæðisverð lækkandi og skattahækkanir framundan,“ segir í Greining Íslandsbanka og bætir því að það þurfi varla að koma á óvart að nú skuli 89% aðspurðra hafa sagt núverandi efnahagsástand vera slæmt á meðan aðeins 0,4% aðspurðra sögðu það gott. Þá töldu 58% aðspurðra að efnahagsástandið yrði verra eftir 6 mánuði og einungis 13% að það yrði betra.

Sjá nánar í Morgunkorni.