Stjórnendur íslenskra fyrirtækja eru fremur svartsýnir á horfur á íslenskum hlutabréfamarkaði á næstunni, að því er fram kemur í könnun Miðlunar og Viðskiptablaðsins undir yfirskriftinni Stjórnendastika Viðskiptablaðsins og Miðlunar.

83% aðspurðra voru frekar eða mjög ósammála fullyrðingunni „Horfurnar á íslenskum hlutabréfamarkaði til næstu þriggja mánaða eru góðar“.

Heldur fleiri voru frekar ósammála, eða 51% af þeim sem svöruðu, en 32% voru mjög ósammála. Einungis 0,2%, eða einn, voru mjög sammála fullyrðingunni og tæplega 17% voru frekar sammála.

Þegar litið var lengra fram í tímann og spurt um viðhorf til fullyrðingarinnar „Horfurnar á íslenskum hlutabréfamarkaði til næstu 12 mánaða eru góðar“ fækkaði þeim svartsýnu. 61% var frekar eða mjög ósammála fullyrðingunni, en 39% voru frekar eða mjög sammála.

Sem fyrr voru flestir í hópnum sem var frekar ósammála, eða 46% þeirra sem tóku afstöðu, en 35% voru frekar sammála. aðeins 4% voru mjög sammála og 15% voru mjög ósammála.

Skiptar skoðanir um atvinnuhorfur

Eins og við var að búast voru svörin keimlík þegar spurt var hvort stjórnendur væru sammála fullyrðingunni „Horfurnar í rekstri fyrirtækja hér á landi til næstu 12 mánaða eru góðar“.

60% voru frekar eða mjög ósammála því, en 40% frekar eða mjög sammála. 45% voru frekar ósammála og 37% frekar sammála, 15% mjög ósammála og 3% mjög sammála.

Rúmur helmingur, eða 56%, var frekar eða mjög ósammála fullyrðingunni „Horfurnar í atvinnumálum hér á landi til næstu 12 mánaða eru góðar“.

41% var frekar ósammála, en 40% frekar sammála. 15% voru mjög ósammála og 4% mjög sammála. Stjórnendur eru almennt jákvæðir í garð innflytjenda á Íslandi.

Yfirgnæfandi meirihluti, eða 84%, sagðist aðspurður telja almennt séð mjög eða frekar gott fyrir efnahag Íslands að fólk frá öðrum löndum flytjist hingað. 63% voru þeirrar skoðunar að það væri frekar gott og 21% mjög gott. Einungis 3% töldu það vera mjög slæmt og 13% frekar slæmt.