Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað í gær að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum í 4,5%. Var ákvörðun bankans í takt við spá greiningaraðila. Það var þó ekki umræða um vaxtastig sem lék stærsta hlutverkið í yfirlýsingu peningastefnunefndar heldur var það umræða um íslensku krónuna sem vakti hvað mesta athygli.

Síðastliðinn föstudag var greint frá því að til stæði að losa síðasta hluta aflandskrónueigna sem lokuðust inni við innleiðingu fjármagnshafta í kjölfar fjármálakreppunnar með breytingu á lögum um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum. Umfang þeirra aflandskróna sem eftir eru nemur um 84 milljörðum króna og því nokkuð ljóst að slík upphæð myndi hafa töluverð áhrif á gengi krónunnar ef eigendur þeirra muni skipta þeim í erlendan gjaldeyri í gegnum frekar þunnan gjaldeyrismarkað.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar kemur hins vegar fram að Seðlabankinn muni grípa inn í á gjaldeyrismarkaði í samræmi við fyrri yfirlýsingar þar sem ekki sé eðlilegt að úrlausn slíks fortíðarvanda lækki gengi krónunnar. Í þetta skipti mun losun aflandskróna þó fara í gegnum gjaldeyrismarkaðinn en ekki í gegnum bein gjaldeyrisviðskipti Seðlabankans líkt og í fyrri losunum á aflandskrónum.

Þá segir einnig í yfirlýsingu nefndarinnar að í því samhengi muni Seðlabankinn „einnig horfa til þess að vísbendingar eru um að gengislækkunin undanfarið hafi fært raungengið niður fyrir jafnvægisgildi sitt“. Í markaðspunktum greiningardeildar Arion banka er þetta talið benda til þess að Seðlabankinn sé þeirrar skoðunar að „svartsýniskastið“ á gjaldeyrismarkaði í haust, líkt og seðlabankastjóri orðaði það á kynningarfundi vegna stýrivaxtaákvörðunarinnar í gær, hafi gengið of langt og að krónan eigi styrkingu inni.

Óvenjuleg yfirlýsing

„Seðlabankinn hefur hingað til ekki lagt það í vana sinn að tala afdráttarlaust um hvort krónan sé of veik eða of sterk,“ segir Stefán Broddi Guðjónsson, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka. „Þetta er því nokkuð óvenjulegt að bankinn skuli orða þetta með svona skýrum hætti og ekki er hægt að túlka það öðruvísi en svo að það sé mat Seðlabankans að krónan sé fullveik.

Miðað við undirliggjandi forsendur virðist það vera mat bankans að krónan sé of veik miðað við það hvernig staða hagkerfisins er. Hafandi það í huga að Seðlabankinn er stór þátttakandi á gjaldeyrismarkaði og ætlar sér að vera þátttakandi í því að temja skarpar sveiflur þá skiptir töluverðu máli hvernig hann sér krónuna og einnig þar sem gengi krónunnar hefur mikil áhrif á verðbólguþróun. Það að Seðlabankinn tali með þessum hætti er því töluverð yfirlýsing í sjálfu sér þar sem hann er sá aðili sem hefur bestar upplýsingar á hverri stundu um undirliggjandi efnahagsaðstæður.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .