„Auðvitað höfum við áhyggjur af því að kjarasamningur sem við gerðum 17. febrúar rýrnar dag frá degi," segir Grétar Þorsteinsson, forseti Alþýðusambands Íslands. Hann bætir því við að nánast engar líkur séu orðnar á því að forsendur samningsins standist.

Það sé því viðfangsefni þeirra sem stóðu að kjarasamningnum, þ.e.a.s. ASÍ, Samtaka atvinnulífsins og ríkisstjórnarinnar að tryggja eftir því sem mögulegt er meginmarkmið hans: Að skapa stöðugleika og lækka verðbólgu. Grétar segir að það hafi verið vitað fyrirfram að verðbólgukúfur kæmi um mitt ár. Nú sé hins vegar ljóst að verðbólgan verði meiri og hugsanlega langvinnari en áður var talið. Viðfangsefni fyrrnefndra aðila sé því að reyna að lágmarka skaðann.

Forystumenn ASÍ funduðu með fulltrúum ríkisstjórnarinnar fyrr í dag um stöðuna í efnahagsmálum. Grétar segir að ASÍ hafi óskað eftir fundinum. Á honum hafi staðan verið rædd, eins og áður sagði. Sömuleiðis hafi verið rætt hvað framundan væri. Ríkisstjórnin hafi enn fremur upplýst að hún hygðist boða til fundar með m.a. fulltrúum atvinnulífsins og samtökum launafólks í næstu viku, þar sem ætlunin væri að menn bæru saman bækur sínar.

„Við höfum reynslu af svona samráði," segir Grétar, inntur eftir því hvort svona fundahöld skili einhverju. Sporin eigi því ekki að hræða, segir hann. Það sýni reynslan frá vorinu 2001 og þjóðarsáttasamningunum 1990.

„Í okkar huga er það deginum ljósara að ef þessir aðilar setjast af alvöru yfir viðfangsefnið muni það skila árangri. Enginn er þó með töfralausn nú frekar en endranær.“