*

miðvikudagur, 26. júní 2019
Innlent 11. ágúst 2017 12:07

Svartsýnni en Danir þegar kemur að húsnæði

Íslendingar virðast upp til hópa vera ósammála því að hér sé hægt að finna „húsnæði á viðráðanlegum kjörum“.

Pétur Gunnarsson
Haraldur Guðjónsson

Íslendingar virðast upp til hópa vera ósammála því að hér sé hægt að finna „húsnæði á viðráðanlegum kjörum,“ samkvæmt nýlegri Vísitölu félagslegra framfara (Social Progress Index) sem birt var í síðasta mánuði. Almennt kom Ísland vel út þegar kemur að félagslegum framförum. Ísland hreppti 3. sætið af 128 en Danmörk það fyrsta. Þetta kemur fram í nýrri greiningu Greiningardeildar Arion banka. 

Mestur munur er á milli Íslands og Danmerkur þegar kemur að mælingu á liðnum „húsnæði á viðráðanlegum kjörum,“ en fyrir þann undirlið vísitölunnar tók Ísland skarpa dýfu niður listann og vermir nú 83. sæti á meðan Danir eru í því sjöunda. 

Niðurstaðan er byggð á skoðanakönnun sem framkvæmd var af Gallup. Samkvæmt þeirri könnun sögðust 76% Dana hafa aðgengi að húsnæði á viðráðanlegu kjörum á meðan aðeins um 40% Íslendinga svöruðu spurningunni játandi. Þetta er töluverð breyting á afstöðu Íslendinga til húsnæðismarkaðarins þar sem þetta hlutfall var 46% fyrir aðeins tveimur árum og 45% í fyrra. Yfir sama tímabil jókst hins vegar jákvæðni Dana í garð húsnæðismarkaðarins. Greiningardeild Arion banka veltir því upp að hve miklu leyti þessi upplifun endurspeglist í hagtölum. 

Danir eyða meira í húsnæði en Íslendingar

Greiningaraðilar benda á að raunverð íbúðarhúsnæði hafi hækkað verulega hér á landi á síðustu árum og mældist 19,4% hækkun milli ára í júní. Samhliða þessum miklu raunverðshækkunum telja færri sig hafa aðgang að húsnæði á viðráðanlegum kjörum. „Þá hefur húsnæðisverð hækkað hraðar en laun og því ætti einföld þumalputtaregla um hlutfall ráðstöfunartekna og húsnæðisverðs að segja okkur að erfiðara er að eignast þak yfir höfuðið en áður. Sambærileg þróun hefur einnig átt sér stað í Danmörku, í talsvert lengri tíma en hérlendis, þó hún hafi ekki verið nærri eins hröð og á Íslandi síðustu misserin. Af þeim sökum eyða Danir að jafnaði hlutfallslega mun stærri hluta af launum sínum í húsnæði en Íslendingar,“ segir í greiningu bankans. 

Enn fremur eru skuldir heimila hérlendis lægri en í Danmörku, bæði sem hlutfall af landsframleiðslu og ráðstöfunartekjum, en skuldir meðal danskrar fjölskyldu eru mun hærri en gengur og gerist meðal annarra norrænna fjölskyldna. Því spyr greiningardeildin: „Hvers vegna í ósköpunum eru skuldum vafðir Danir þá svona ligeglade þegar kemur að húsnæðismarkaðinum?“

Vextir og húsnæðisverð

„Þar sem Íslendingar búa frekar í eigin húsnæði en Danir, og vaxta- og lántökukjör eru misjöfn milli landa segir þróun íbúðaverðs og launa okkur aðeins hluta af sögunni. Vaxtarstig hér á landi hefur verið mikið í kastljósinu undanfarin ár og hefur ákall um vaxtalækkanir farið hátt. Lækkun vaxta myndi hafa áhrif á alla eignamarkaði og er húsnæðismarkaðurinn ekki undanskilinn, en ódýrara fjármagn myndi að öllum líkindum þrýsta húsnæðisverði upp á við. Dæmi um slíka þróun má sjá í Danmörku, en þar hafa lágir vextir stuðlað að frekari hækkun húsnæðisverðs og því ekki skilað sér til heimilanna í formi lækkunar á húsnæðiskostnaði. Meðal annars af þeim sökum fer hlutfallslega meira af ráðstöfunartekjum Dana í húsnæði en hér á landi, þó ekki megi gleyma í þessum samanburði að Íslendingar njóta góðs af lágum rafmagns- og húshitunarkostnaði,“ segir í greiningu Arion banka. 

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is