*

föstudagur, 28. janúar 2022
Innlent 26. nóvember 2021 16:26

Svartur föstudagur í Kauphöllinni

Flugfélögin tóku snarpa dýfu á markaðnum í dag í kjölfar fregna um nýtt afbrigði af Covid-19.

Ritstjórn

Hlutabréfamarkaðurinn tók snarpa dýfu í dag í kjölfar fregna um nýtt afbrigði af Covid-19. Viðskiptablaðið greindi frá þessu í morgun.

Flugfélögin tvö, Icelandair og Play, lækkuðu talsvert í viðskiptum dagsins. Icelandair lækkaði mest, eða um 4,73% í 457 milljón króna viðskiptum. Gengi flugfélagsins stendur nú í 1,61. Play lækkaði einnig töluvert, eða um 3,61%, og hafa bréf í félaginu ekki verið lægri í 2 mánuði.

Mesta veltan var með hlutabréf í Kviku eða um milljarður króna og lækkuðu bréf í félaginu um 2,9%. Næst mesta veltan var með bréfum í Arion upp á ríflega 670 milljónir króna og lækkuðu bréf í félaginu um 1,6%. Einnig var mikil velta með bréfum í Eimskip eða um 600 milljón króna og lækkuðu bréf Eimskips næst mest allra félaga í Kauphöllinni í dag, um 3,21%.

Marel lækkaði talsvert, eða um 3,1% í 330 milljón króna viðskiptum. Aðeins eitt félag hækkaði í dag, en það var fjarskiptafélagið Sýn, sem hækkaði um 2,46% í um 290 milljón króna viðskiptum.

Heildarvelta á aðalmarkaði nam 5,3 milljörðum króna í dag. Úrvalsvísitalan lækkaði um 2,51% og stóð lokagildi hennar í 3.224,06.