Heilsuréttir Hagkaups eftir Sólveigu Eiríksdóttur, betur þekktri sem Sollu á Grænum kosti, var  í efsta sæti á metsölulista Rannsóknarseturs verslunarinnar fyrir dagana 12. til 25. janúar sl. Bókin hefur verið í efsta sæti listans frá áramótum og er þar með mest selda bókin frá áramótum.

Í öðru sæti var spennusagan Svartur á leik eftir Stefán Mána. Rétt er að geta þess að bókin kom upphaflega út árið 2004 en var nú nýlega endurprentuð í kilju í kjölfar þess að kvikmynd eftir bókinni verður frumsýnd hér á landi á morgun.

Í þriðja sæti var bókin Gamlinginn sem skreið út um gluggann og hvarf eftir sænska rithöfundinn Jonas Jonasson en hún er jafnframt næst mest selda bókin frá áramótum. Í fjórða sæti listans á umræddu tímabili var bókin Hausaveiðararnir eftir Jo Nesbø.

Athygli vekur að spennusagan Brakið eftir Yrsu Sigurðardóttur er nú kominn út af listanum yfir 10 mest seldu bækurnar á milli vikna en þar hefur hún verið allt frá því að hún kom út í byrjun nóvember sl. Brakið er þó sjöunda mest selda bókin frá áramótum. Einvígið eftir Arnald Indriðason er þó enn á listanum og er nú sjötta mest selda bókin frá áramótum.

Skjámynd úr kvikmyndinni Svartur á leik sem byggð er á samnefndri skáldsögu Stefáns Mána.
Skjámynd úr kvikmyndinni Svartur á leik sem byggð er á samnefndri skáldsögu Stefáns Mána.

Skjámynd úr kvikmyndinni Svartur á leik sem byggð er á samnefndri skáldsögu Stefáns Mána.