Einkahlutafélagið Sautján ehf skilaði hagnaði upp á 10 milljónir króna á síðasta ári en hann nam rúmum 16,7 milljónum króna árið 2011. Hagnaður fyrir skatta nam 15,5 milljónum króna í fyrra borið saman við 19,9 milljónir árið 2011.

Svava Johansen verslunarkona á allt hlutafé í Sautján ehf. Lagt er til í ársreikningi að félagið greiði henni 13,5 milljónir króna í arð vegna afkomunnar árið á undan. Þetta er önnur arðgreiðsla félagsins, sem var stofnað árið 2009. Hitt skiptið var árið 2010 þegar greiddur var út 18 milljóna króna arður til eiganda félagsins vegna afkomunnar á fyrsta rekstrarárinu.

Hlutur í NTC skráður á 45 milljónir

Sautján ehf á 46,4% hlut í NTC-samstæðunni sem á verslanir Galleri Sautján og tengd fyrirtæki. Hlutur Sautján ehf í NTC er metinn á 45 milljónir króna. Hann er skráður á kostnaðarverði. Í uppgjöri NTC er ekki lagt til að eigendum verði greiddur út arður. VB.is fjallaði um uppgjör NTC fyrr í dag. Þar sagði m.a. að NTC tapaði 90 milljónum króna í fyrra eftir tæplega 457 milljóna króna hagnað árið 2011.

Eignir Sautján ehf námu 132,8 milljónum króna um áramótin síðustu borið saman við 123,5 milljónir ári fyrr. Þá námu skuldir 60,7 milljónum króna sem er tæpum 13 milljónum krónum meira en undir lok árs 2011. Eigið fé Sautján ehf nam á síðasta degi 2012 72 milljónum króna. Þar af var óráðstafað eigið fé tæpar 65,9 milljónir.