Svava Bjarnadóttir viðskiptafræðingur er nýr formaður stjórnar hugbúnaðarfyrirtækisins Kolibri. Hún tók við formennsku af Ara Viðari Jóhannessyni, sem ásamt Daða Ingólfssyni og Guðjóni Guðjónssyni mynda stjórn fyrirtækisins með Skúla Valberg framkvæmdastjóra.

Svava hefur mikla reynslu úr viðskiptalífinu og var um árabil fjármálastjóri Mannvits með áherslu á mannauð, breytingastjórn og stefnumótun. Svava á og rekur ráðgjafarfyrirtækið Kapitula sem býður leiðtogaþjálfun, stjórnendaþjálfun, persónulega stefnumótun ásamt stefnumótunar- og rekstrarráðgjöf fyrir fyrirtæki og sprota.

Í samtali við viðskiptablaðið segir Skúli Valberg Ólafsson, framkvæmdastjóri Kolibri, að það sé ríkjandi í heimssýn Kolibri að stafræn tækni snúist um fólk og því sé reynsla og þekking Svövu fyrirtækinu mikilvæg.

"Stjórn Kolibri leggur áherslu á góða og ábyrga viðskiptahætti, opið upplýsingaflæði og uppbyggilegt samstarf. Stjórnin eflir enn frekar stjórnskipan Kolibri, Holacracy, sem undirstrikar áherslur á sveigjanleika, frumkvæði, tilgang og valdeflingu. Þannig beinast aðferðir, þekking, reynsla og hugarfar starfsfólks að því að draga fram það besta í viðskipta- og rekstrarumhverfi Kolibri," segir Skúli.