Svavar Halldórsson, fyrrverandi fréttamaður Ríkisútvarpsins (RÚV), hefur kært íslenska ríkið til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna dóms Hæstaréttar í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar gegn honum. Fram kemur á vef RÚV að útvarpið standi með Svavari að kærunni.

Málið snýr að tvennum ummælum Svavars í frétt hans um viðskipti sem tengjast Jóni Ásgeiri og Pálma Haraldssyni í svokallaðri Panama-fléttu. Hæstiréttur dæmdi þau dauð og ómerk í nóvember í fyrra og var Svavar jafnframt dæmdur til að greiða Jóni Ásgeir 300 þúsund krónur í miskabætur vegna meiðyrða auk einnar milljónar króna í málskostnað. Héraðsdómur hafði áður sýknað Svavar.

Páll Magnússon útvarpsstjóri segir í tilkynningu aðkomu RÚV að málinu tengjast því að grundvallaratriði í frjálsri frétta- og blaðamennsku sé í húfi og verði að reyna til þrautar á hvort það gildi ekki á Íslandi líkt og öðrum löndum sem búi við frjálsa fjölmiðla.