„Ég sagði upp til að einbeita mér að því sem er skemmtilegast. Þetta er svolítið í mótun en ég ætla að framleiða efni sem fjallar um mat,“ segir Svavar Halldórsson. Hann var fréttamaður á RÚV í rúman  áratug en sagði upp störfum á fréttastofunni í febrúar síðastliðnum.

Svavar og kona hans, fjölmiðlakonan og forsetaframbjóðandinn Þóra Arnórsdóttir, hafa stofnað félagið Íslenskur matur og matarmenning.  Svavar er formaður stjórnar en Þóra meðstjórnandi. Stofnandi félagsins er Hugveitan ehf sem þau Svavar og Þóra eiga. Í Lögbirtingablaðinu segir að tilgangur Íslensks matar og matarmenningar sé framleiðsla sjónvarpsþátta og kvikmynda og leikstjórn við sjónvarpsþátta- og kvikmyndagerð ásamt  vefsíðugerð og bókaútgáfu.

„Þetta er fyrirtæki sem ætlar að vinna að því að koma íslenskum mat og matarmenningu á framfæri bæði innanlands og utan með öllum tiltækum ráðum. Allt er undir, bæði sjónvarp, bækur og vefur,“ segir Svavar í samtali við vb.is. „Það eru nokkur verkefni til skoðunar. En fyrirtækið er nýstofnað og kannski erfitt að segja nákvæmlega hver framvindan verður. En það eru mörg spennandi verkefni í skoðun.“