„Að mínu mati lítur þetta engan veginn eins efnislega illa út og gert var ráð fyrir um tíma,” segir Svavar Gestsson um Icesave-viðræðurnar við Hollendinga og Breta en hann leiðir viðræðurnar fyrir hönd Íslendinga.

Svavar vill ekkert gefa upp um innihald viðræðnanna. „Það er gangur í þessum viðræðum. Það eru þétt samskipti við Breta og Hollendinga. Ég vona að þetta taki ekki alltof langan tíma til viðbótar.”

Aðspurður hvort viðræðurnar strandi á einhverju sérstöku segir hann svo ekki vera. „Þetta er eins og rúmlega ein fjárlög sem við erum með svo það er ekki óeðlilegt að þetta taki einhvern tíma,” segir hann.

„Ég hef stundum orðað það þannig að ég viti hvernig landið sem ég vil sjá lítur út en ég sé ekki til lands enn þá. Ég er farinn að sjá múkkann og veit þess vegna að það er land framundan."

Samtals er lánið sem Íslendingar þurfa að taka á sig vegna Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi og Hollandi í kringum 600 milljarðar króna. Bresk og hollensk stjórnvöld tóku lán fyrir jól til að greiða innstæðueigendum í löndunum tveimur hámarksupphæðina 20.887 evrur. Lánin voru að sögn ríkistjórna landanna tekin í krafti þess að Íslendingar myndu endurgreiða þau.

Þegar Svavar er spurður hvort búið sé að semja um vaxtakjör á þeim lánum svarar hann: „Það er ekkert búið fyrr en allt er búið í svona máli.”

Brot á starfsreglum AGS að blanda sér í tvíhliða viðræður

Haft var eftir Gordon Brown forsætisráðherra Breta í neðri deild þingsins fyrir helgi að Bretar ættu nú í samningaviðræðum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um greiðslu skulda vegna hruns íslensku bankanna.

Svavar segir aðspurður um þau ummæli að þeim hafi verið neitað af öllum aðilum – meira að segja Bretum sjálfum. „Það væri brot á starfsreglum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ef hann væri að blanda sér í tvíhliða viðræður af þessu tagi. Ég vil ekki trúa því.”