Að sögn Svavars Gestssonar, sendiherra og formanns íslensku Icesave nefndarinnar, eru útreikningar Tryggva Þórs Herbertssonar alþingismanns á skuldbindingum vegna vaxtagreiðsla vegna Icesave-samningsins ekki réttir. Svavar segir að Tryggvi Þór taki ekki tillit til þess að á meðan íslenska ríkið þurfi ekki að greiða af lánunum næstu sjö árin geti eignasafn Landsbankans að sjálfsögðu lækkað höfuðstólinn.   Svavar sagði að það væri rangt hjá Tryggva Þór að reikna vexti allan tímann eins og ekkert gerðist við niðurgreiðslu og fá þannig út 300 milljarða skuldbindingu utan forgangskrafna.

,,Höfuðstólinn lækkar hratt og það var merkilegt að í gær kemur frétt þar sem Skilanefndin talar um 83% endurheimtur en við töluðum um 75% endurheimtur. Þannig að þetta er miklu betra en það sem við höfðum reiknað með. Afgangurinn er ekki 170 milljarðar króna eins og við höfum verið að skjóta á heldur 110 milljarðar þannig að munurinn er 50 – 60 milljörðum betri en ella væri. Skilanefndin er því með betri upplýsingar um eignir Landsbankans heldur en við höfum áður séð.”

-  Sem þér finnst styðja betur jákvæða niðurstöðu þessa samkomulags?

,,Að sjálfsögðu.”

-  En talandi um þessar fullyrðingar Tryggva Þórs – hann segir að vaxtagreiðslurnar hafi ekki forgang í þrotabúið?

Krafan okkar  er um 700 miljarðar króna eins og gengið er í dag og við fáum vexti af henni til 22. apríl 2009 sem er úrskurðardagur frá Landsbankanum. Vextir sem falla okkar kröfu eftir það njóta ekki forgangs, hins vegar eru eignir Landsbankans að bera vexti sem við vitum ekki hvað eru háir og  á meðan eignirnar bera vexti þá hækkar verðmæti þeirra og allan tímann sem eignir þeirra bera vexti þá vinnum við hluta af því sem er borgað sem forgangskrafa. Málflutningur Tryggva sýnir málið því miður ekki í jafnvægi sem er nauðsynlegt.”