Héraðsdómur Reykjaness sýknaði í dag Svavar Halldórsson, fréttamann Rúv, af kröfu Pálma Haraldssonar. Pálmi stefndi Svavari, og Maríu Sigrúnu Hilmarsdóttur og Páli Magnússyni til vara, vegna fréttar Svavars sem bar yfirskriftina „milljarðar hurfu í reyk“ í kvöldfréttum Rúv 25. mars 2010. Pálmi krafðist þess að ummæli í fréttinni yrðu dæmd dauð og ómerk auk þess að honum verði greiddar 3 milljónir í miskabætur.

Á það féllst dómari ekki. Pálma Haraldssyni var gert að greiða Svavari Halldórssyni 1 milljón í málskostnað og varastefndu, Maríu Sigrúnu og Páli, 500 þúsund krónur.

Í niðurstöðu dómsins segir að þegar annars vegar rétturinn til tjáningar og hins vegar æruvernd skarast þá ber m.a. að líta til þess jarðvegs sem ummælin spruttu úr, stöðu þeirra aðila sem hlut eiga að máli og til þess hvort hið birta efni geti talist þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu og eigi því erindi til almennings.

Í niðurstöðum dómsins segir ennfremur:

„Við bankahrunið í október 2008 varð mikil breyting á viðskiptalífinu og í þjóðfélaginu almennt. Hrina gjaldþrota reið yfir fyrirtæki og einstaklinga, gengi krónunnar hrundi og sviptingar urðu í ríkisstjórn landsins svo fátt eitt sé nefnt. Fjölmiðlar hafa fjallað um þessa atburði allt frá því er kreppan hófst og ennfremur fjallað um þá einstaklinga sem komu við sögu, þ. á m. stefnanda, sem hefur verið áberandi í viðskiptalífinu undanfarin ár. Fréttir hafa oft fjallað um hlut hans og fyrirtækja hans í bankahruninu. Fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki við að miðla upplýsingum til almennings um þjóðfélagslega hagsmuni. Í ljósi þeirra aðstæðna sem sköpuðust eftir bankahrunið verður stefnandi að þola nærgöngula umræðu um verk sín og persónu sína. Lánveitingar og fjármagnsflutningar í aðdraganda bankahrunsins eru mikilvægar fréttir og eiga brýnt erindi til almennings.

Þó að aðalstefnda kunni við samningu fréttarinnar að hafa skjátlast að einhverju leyti í mati sínu á heimildum, en stefnandi hefur leitt nokkrar líkur að því, hefur ekki verið sýnt fram á að þær fullyrðingar, sem birtust í fréttinni, hafi verið settar fram í vondri trú. Verður í þessu sambandi að líta til þess jarðvegs sem ummælin spruttu úr og til nauðsynlegrar umræðu í þjóðfélaginu um orsakir og afleiðingar bankahrunsins.“