*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 21. júlí 2021 11:30

Svavar og Berglind selja Karlsstaði

Berglind Häsler og Svavar Pétur Eysteinsson hafa selt Karlsstaði í Berufirði.

Ritstjórn
Svavar Pétur Eysteinsson, betur þekktur sem Prins Póló.

Hjónin Berglind Häsler og Svavar Pétur Eysteinsson, betur þekktur sem tónlistarmaðurinn Prins Póló, hafa gengið frá sölu á Karlsstöðum í Berufirði. Þar hafa þau rekið gistiheimili og veitingastað frá árinu 2014. Í tilkynningu á Facebook kemur fram að nýir aðilar hafi tekið við rekstrinum. Berglind og Svavar munu þó áfram halda úti menningarstarfsemi undir merkjum Havarí.

„Við fluttum austur fyrir rúmum 7 árum og þó svo að Karlsstaðir hafi verið paradís okkar fjölskyldunnar þá var Havaríið mun stærra en það. Allt frá byrjun voru stórfjölskylda okkar og vinir tilbúin að taka þátt í þessu með okkur og stundirnar sem við áttum þarna saman ævintýralega magnaðar,“ segir í færslunni.

„Handtökin voru nokkur en eitt skref í einu þá gekk þetta upp. Það var mikið hlegið en líka grátið enda ekki átakalaust að reisa þennan fagra bæ upp úr öskustónni. Við eigum eftir að sakna sveitarinnar og alls góða fólksins fyrir austan sem tók okkur opnum örmum. Við göngum sátt og hamingjusöm frá borði. Þökkum öllum sem sóttu okkur heim og óskum nýjum bændum á Karlsstöðum alls hins besta í framtíðinni. Havarí mun áfram standa fyrir taumlausa gleði og listgjörninga í raunheimi og netgeimi.“

Í samtali við mbl.is í janúar sagði Berglind að ýmis verkefni væru fram undan hjá henni og Svavari í Reykjavík. Hún vinnur nú sem viðburða- og samskiptastjóri hjá Vinstri grænum fram yfir þingkosningarnar í haust.

Jörðin við Karlsstaði er alls 135 hektarar að stærð, þar af eru 25 hektara ræktuð tún og matjurtagarðar. Í fasteignaauglýsingunni, sem hefur nú verið tekin niður, kom fram að á jörðinni væru tvö íbúðarhús en annað þeirra er notað sem gistihús. Einnig er að finna matvælaframleiðsluhús með kæligeymslu, hostel, veitingahús/samkomusal og skrifstofu sem breytt hefur verið í hljóðver. Þá eru einnig eldri útihús, hlaða, fjós og hænsnakofi sem eru ekki í notkun. 

Leiðrétt: Upphaflega fyrirsögnin var „Svavar og Berglind selja Havarí“. Ábending hefur þó borist um að hjónin hafi selt Karlsstaði en munu halda áfram menningarstarfsemi undir merkjum Havarí.