Neytendastofa hefur komist að þeirri niðurstöðu að verslunin Svefn og heilsa hafi brotið gegn ákvörðun stofnunarinnar með því að fjarlægja ekki af vefsíðu fyrirtækisins fullyrðingar sem Neytendastofa hafði bannað.

Krefst stofnunin þess að Svefn og heilsa fari að ákvörðun hennar innan fjórtán daga, ella leggist dagsektir á félagið, 100 þúsund krónur á dag, samkvæmt ákvæðum laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

Birtir enn bannaðar fullyrðingar

Málið snýst um fullyrðingar um heilsudýnur sem Svefn og heilsa hefur selt að liðnum árum. Neytendastofa bannaði fyrirtækinu að nota fullyrðingar um þær í auglýsingum og á vefsíðu fyrirtækisins, en við athugun kom í ljós að þær eru enn inni á vefsíðunni.

Þykir því liggja ljóst fyrir að Svefn og heilsa hafi ekki farið að ákvörðun Neytendastofu og sýnt að það muni ekki fara að henni.

Af þeim sökum þykir stofnuninni nauðsynlegt að beita viðurlögum.