Samkvæmt nýrri rannsókn Rand Europe kostar svefnleysi breska hagkerfið um 40 milljarða punda á ári hverju, eða því sem jafngildir 5.598 milljarða íslenskra króna eða 1,86% af vergri landsframleiðslu Bretlands. Útreikningar Rand byggja á tölum um framleiðni með teknu tilliti til svefnleysis, oft er það jafnvel þannig að starfsmenn mæta ekki til vinnu vegna þreytu.

Rand Europe notaðist við gögn yfir svefnvenjur 62 þúsund einstaklinga. Ónógur svefn hefur mest áhrif á heilsu fólks. Þeir sem sofa undir sex klukkustundum eru 13% líklegri til þess að látast fyrir aldur fram en þeir sem sofa á milli sjö til níu tíma.

Önnur stór lönd koma enn verr út úr rannsókninni en Bretar:

  • Bandaríkjamenn tapa 1,2 milljón vinnudaga vegna svefnleysis og kostar það bandaríska hagkerfið 411 milljarða dollara eða 2,28% af VLF.
  • Japanir tapa um 600 þúsund vinnudögum, sem kostar japanska hagkerfið 2,92% af VLF.

Í umfjöllun BBC um málið er haft eftir Marco Hafner, sem stendur fyrir rannsókninni að áhrif svefnleysis væru gífurlega mikil. „Svefnleysi hefur ekki einungis áhrif á líf einstaklinga heldur einnig á hagkerfi heilu þjóðanna,“ er haft eftir Hafner.