*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 30. mars 2021 11:29

Sveiflujöfnunarauki óbreyttur

Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans telur að ekki séu komin fram skýr merki um aukningu í sveiflutengdri kerfisáhættu.

Ritstjórn
Gunnar Jakobsson er varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika.
Gígja Einarsdóttir

Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda sveiflujöfnunarauka á fjármálafyrirtækjum óbreyttum. Telur nefndin að ekki séu komin fram skýr merki um aukningu í sveiflutengdri kerfisáhættu, auk þess sem enn ríki nokkur óvissa um gæði útlánasafna fjármálafyrirtækja vegna áhrifa farsóttarinnar.

Kröfu um sveiflujöfnunarauka var aflétt 18. mars á síðasta ári, eða um það leyti sem farsóttin var farin að taka sér bólfestu hér á landi. Í minnisblaði þar sem farið er yfir bakgrunn ákvörðunar fjármálastöðugleikanefndar segir að það hafi verið gert þar sem mikil óvissa ríkti um þróun vanskila og virðisrýrnunar í kjölfar útbreiðslu farsóttarinnar.

„Mikilvægt þótti að draga úr neikvæðum áhrifum þess á miðlun lánsfjármagns. Svigrúm viðskiptabankanna til að viðhalda útlánum samhliða endurskipulagningu lánasafna rýmkaði umtalsvert við það. Líkur eru á að aflétting sveiflujöfnunarauka hafi átt þátt í að viðhalda aðgengi heimila og margra fyrirtækja að lánsfé en útlán bankanna til heimila hafa aukist töluvert á sl. mánuðum," segir í minnisblaðinu

Þar segir jafnframt að aðgerðir Seðlabankans geri fjármálakerfið betur í stakk búið til að styðja við hagkerfið af krafti þegar ástandið batnar. „Gæta þarf þess að sveiflutengd kerfisáhætta aukist ekki úr hófi þegar efnahagslífið tekur við sér á ný, svo sem með óhóflegum skuldavexti og ósjálfbærri hækkun eignaverðs. Mikilvægt er því að fylgjast vel með fjármálasveiflunni, þ.e. eignaverði, skuldsetningu og tengdum stærðum og hækka sveiflujöfnunaraukann á ný ef sveiflutengd kerfisáhætta eykst."

Jafnframt er komið inn á það að skuldir fyrirtækja við innlend fjármálafyrirtæki hafi dregist nokkuð saman að raunvirði á síðasta ári en gengis- og verðlagsleiðréttur skuldastofn hafi vaxið lítillega vegna aukinna erlendra skulda og gengislækkunar. „Rúmlega þriðjungur heildarskulda fyrirtækja er í erlendum gjaldmiðlum. Gengisveiking ársins 2020 leiðir því til vaxtar skulda að nafnvirði. Í lok ársins var tólf mánaða raunvöxtur skulda fyrirtækja 0,4% en gengis- og verðlagsleiðrétt mældist 1,0% samdráttur."

Aðgengi heimila að lánsfjármagni sé áfram greitt. „Tólf mánaða raunvöxtur skulda heimila var 4,7% í lok desember. Hagstæð kjör á nýjum fasteignalánum hafa ýtt undir endurfjármögnun lána. Viðskiptabankarnir hafa aukið hlutdeild sína á íbúðalánamarkaði á kostnað annarra aðila, einkum ÍL-sjóðs. Veðsetningarhlutföll og greiðslubyrðarhlutföll nýrra útlána bankanna hafa lækkað og vísar um útlánagæði sýna almennt jákvæða þróun. Stækkun lánabókar bankanna þarf því ekki að vera merki um aukna kerfisáhættu."

Þá séu nær engin útlán lengur í greiðsluhléi vegna farsóttarinnar en þau hafi ekki talsit í vanefndum. Vanefndir einstaklingslána , þ.m.t. frysting, hafi aukist úr 2,1% af heildarútlánum við lok ársins 2019 í 2,9% í lok febrúar síðastliðins. Vanefndir fyrirtækjalána hafi aukist sýnu meira, eða úr 4,8% í 18,3%. Vanefndir séu nú áberandi mest í ferðaþjónustu. Viðbúið sé að vanefndir aukist enn frekar ef efnahagsáfallið dregst á langinn eða efnahagsbatinn verður hægur.

Farið er víða um völl í minnisblaðinu, meðal annars er farið yfir fasteignamarkað og bankamarkað, sem alls er 20 blaðsíður að lengd. Áhugasamir geta nálgast minnisblaðið hér.