*

sunnudagur, 16. maí 2021
Innlent 16. desember 2020 09:24

Sveiflujöfnunarauki verður áfram í 0%

Að mati fjármálastöðugleikanefndar Seðlabankans hefur sveiflutengd kerfisáhætta ekki aukist síðustu misseri.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands telur eiginfjár- og lausafjárstöðu stóru bankanna þriggja vera sterka en í yfirlýsingu nefndarinnar segir að vaxtaálag á skuldabréfaútgáfur þeirra hafi lækkað.

Þar með hafi bankarnir greiðan aðgang að lausu fé bæði í krónum og erlendum gjaldmiðlum sem þeir hafi nýtt til endurfjármögnunar og því búi þeir yfir miklum viðnámsþrótti til að takast á við neikvæðar afleiðingar farsóttar kórónuveirunnar.

Afnám sveiflujöfnunaraukans frá því 18. mars síðastliðins sem og aðrar aðgerðir til að auka laust fé í umferð hafa að mati nefndarinnar dugað til að auka laust fé í umferð nægilega mikið til að auðvelda fjármálafyrirtækjum að vinna með lántakendum í greiðsluerfiðleikum og samtímis viðhaldið útlánagetu.

„Að mati nefndarinnar hefur sveiflutengd kerfisáhætta ekki aukist að neinu marki síðustu misseri,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni á vef Seðlabankans.“ „Fjármálastöðugleikanefnd mun beita þeim stýritækjum sem hún hefur yfir að ráða til að varðveita fjármálastöðugleika hér á landi.“

Hins vegar hafi lágvaxtaumhverfið skapað nýjar áskoranir á fjármálamarkaði sem sérstaklega eigi við um lífeyrissjóðina sem eru ráðandi þátttakendur á innlendum fjármálamarkaði og kerfislega mikilvægir. Því sé mikilvægt að við stefnumótun lífeyrissjóðakerfisins sem nú standi yfir verði tekið mið af áhrifum þeirra á fjármálastöðugleika.

Loks hefur nefndin ákveðið að nýtt millibankakerfi Seðlabankans og verðbréfauppgjörskerfi Nasdaq CSD SE teljist til kerfislega mikilvægra innviða. Samkvæmt lögum frá síðasta ár um seðlabankann er það hans hlutverk að ákveða hvaða eftirlitsskyldu aðilar, innviðir og markaðir skuli teljast kerfislega mikilvægir og þess eðlis að starfsemi þeirra geti haft áhrif á fjármálastöðugleika.