„Rekstrarumhverfið á Íslandi hentar mjög illa fyrir fyrirtæki eins og Össur," segir Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar. „Að mörgu leyti er það ómögulegt. Það verður bara að segjast eins og er. Ástæðan er aðallega krónan. Vandamálið er ekki það að krónan sé of sterk eða veik, heldur hversu sveiflukennd hún er.

Lang stærsti hlutinn af okkar starfsemi er erlendis, en um 10% af kostnaðinum er í íslenskum krónum á meðan salan er engin. Hagnaðarhlutfallið minnkar eða eykst þegar krónan fer upp eða niður. En ef evran fer upp eða niður er svo mikill kostnaður í evrum að það vegur alltaf upp á móti. Við höfum gert upp í dollurum síðan 2001 og launakostnaðurinn hér á landi á síðustu þremur árum hefur hækkað miklu meira en 50% í dollurum talið út af krónunni.

Ísland er svo lítið og sveiflurnar í hagkerfinu það miklar að þetta er einfaldlega ekki gott umhverfi. Við þurftum að endurskoða áætlanir fyrirtækisins fyrir árið vegna styrkingar krónunnar. Það hefur engin ákvörðun verið tekin um að færa stöðugildi úr landi, en til lengri tíma litið mun þrýstingur aukast að það verði skoðað.“

Telur þú að hag Íslands væri betur borgið með öðru gjaldmiðlafyrirkomulagi?

„Ég hef ekki farið dult með þá skoðun mína að við ættum að skoða að taka upp annan gjaldmiðil. Auðvitað mótast mitt sjónarhorn af starfi mínu fyrir Össur, sem er alþjóðlegt fyrirtæki og lítur þar af leiðandi öðrum lögmálum en mörg önnur starfsemi á Íslandi. Flest fyrirtæki á Íslandi sem eru með alþjóðlega starfsemi gera upp í erlendri mynt. Svo eru tvær myntir í landinu - verðtryggð króna og óverðtryggð króna. Það er því varla hægt að halda því fram að hér sé allt í stakasta lagi með krónuna.“

Nánar er rætt við Jón Sigurðsson, forstjóra Össurar, í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .