Markaðir í Asíu hækkuðu í viðskiptum dagsins, nema í Kína.

Samsetta vísitalan í Sjanghæ sveiflaðist mikið í viðskiptum dagsins. Hún endaði á að lækka um 0,5%, en vísitalan lækkaði mest um 4% í viðskiptum innan dagsins. Vísitalan lækkaði um 6,4% í gær og hún hefur ekki verið lægri síðan í desember 2014.

Þá hefur hún lækkað um 47% frá því í júní sl. Á síðasta mánuði hefur vísitalan lækkað um 23%, en mánaðarlegt tap hefur ekki verið meira síðan í október 2008, en þá tapaði hún 25% af verðgildi sínu.

Sérfræðingar í málefnum Kína telja að stjórnvöld séu að beina athygli sinni frá því að halda uppi hlutabréfamarkaðnum, og leggi frekar áherslu á að halda Júaninu, gjaldmiðli Kína, stöðugu.

Utan Kína hækkuðu markaðir. Nikkei 225 hækkaði um 2,7% í viðskiptum dagsins. Hang Seng hækkaði um 1,2%.