Sveiflur á hrávörumarkaði halda áfram að setja mark sitt á hlutabréfamarkaði víða um heim, að sögn greiningardeildar Landsbankans.

?Flökt á olíuverði hefur verið mun meira það sem af er ári en á sama tímabili undanfarin ár og hafa áhrif þess komið skýrt fram á hlutabréfamörkuðum," segir greiningardeildin sem bendir á að nokkrar ástæður liggja að baki óróleika olíuverðs á þessu ári en meðal þeirra eru óvissa um kjarnorkuáætlanir Írana, skemmdarverk á olíuvinnslustöðvum í Nígeríu og síaukin eftirspurn eftir hrávörum í Kína.

"Samhliða aukinni óvissu hefur olíuverð lækkað um rúm 7% og álverð um 13% á tímabilinu 11.-22. maí. Svo virðist sem spákaupmenn hafi óttast að verð á hrávörum hafi hækkað of ört og viss leiðrétting hafi síðan átt sér stað. Sú leiðrétting er nú af mörgum talin hafa gengið of langt og bíða margir spákaupmenn þess að hrávöruverð nái vissum stöðugleika áður en þeir taka stöðu í hrávörum á ný," segir greiningardeildin.

Þá að hlutabréfamörkuðum sem hrávörumarkaðurinn hefur haft áhrif á. Frá 11.-22. maí lækkaði til að mynda norska OSEBX vísitalan um 17,4%, danska OMXC20 um 10% og sænska OMX um 12,4%.

?Í gær réttu margir markaðir sig talsvert af og tengja margir það við hækkun á olíuverði í gær en í dag lækkuðu úrvalsvísitölur víðast hvar og þar á meðal á öllum norðurlöndunum," segir greiningardeildin.

Lækkun norsku OSEBX vísitölunnar í dag nam 2,6%, dönsku OMXC20 lækkaði um 1,4% og sænska OMX vísitalan um 1,9%. Euronext 150 vísitalan sem inniheldur 150 stór fyrirtæki víðs vegar um Evrópu lækkaði um 1,5%.