Jean-Claude Trichet, forstjóri evrópska seðlabankans, segir ólíklegt að miklar sviptingar á hlutabréfamörkuðum undanfarið muni hafa áhrif á alþjóðahagvöxt, en hann bætir þó við að sveiflurnar væru gagnleg áminning um þær áhættur sem horfa við fjárfestum, að því er kemur fram í frétt Financial Times.

Trichet ávarpaði fulltrúa evrópskra seðlabanka í Sviss um helgina, að því er virðist til að stemma stigu við óróleika sem hefur verið á fjármálamörkuðum að undanförnu. Hann sagði að efnahagsástandið væri í grunninn ennþá jákvætt og sagðist ekki vænta þess að breyting yrði þar á þegar fjármálamarkaðir rétta sig af.

Hagfræðirannsóknarsetrið í Kiel í Þýskalandi uppfærði spá sína fyrir hagvöxt í Þýskalandi á mánudaginn og spáir nú 2,8% hagvexti á þessu ári. Hagvöxtur í Þýskalandi var 2,7% í fyrra, sem var það mesta síðan árið 2000. Evrópski seðlabankinn hækkaði stýrivexti sína um 25 prósentustig í í síðustu viku og gaf til kynna að frekari hækkannir yðru mögulegar á komandi mánuðum. Stýrivextir bankans eru nú 3,75% og hafa ekki verið hærri í fimm ár.

Trichet deilir bjartsýni seðlabankastjóra Bandaríkjanna, Ben Bernanke, um framtíðarhorfur efnahags þar í landi og sagðist sjá fyrir sér hóflega hægingu á bandaríska efnahagnum.

Hann gaf þá til kynna að sviptingar á fjármálamörkuðum gætu hafa haft einhver jákvæð áhrif, þó að engar formlegar ályktanir hafi verið gerðar. Þá segir hann að í ljósi mikilla hækkanna á mörkuðum undanfarið virðist fjárfestar hafa vanmetið áhættuþætti, sem séu alltaf til staðar og sé því þarft að minna á það, að sögn Trichet.