Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) hefur lagt fram tillögur um breytingar á löggjöf um tilhögun vinnutíma með það fyrir augum að auka sveigjanleika á vinnustað. Nýja tilskipunin getur haft áhrif á Íslandi, þar sem meðal annars hefur verið umræða um áhrif löggjafar um tilhögun vinnutíma á störf lækna í starfsnámi á sjúkrahúsum.

Tillaga framkvæmdastjórnarinnar er viðbrögð við túlkun Evrópudómstólsins á gildandi tilskipun um tilhögun vinnutíma. Túlkun dómstólsins var á þá leið
að allur sá tími sem starfsfólk ver á vinnustað eigi að teljast til vinnutíma, óháð vinnuframlagi. Þetta skapaði vanda og kostnað fyrir vinnustaði, svo sem sjúkrahús, þar sem starfsfólk fær hvíldartíma til að sofa á vinnustað. Í nýju tilskipuninni segir að sá tími, sem starfsfólk hefur til að sofa á vinnustað en er engu að síður tiltækt ef nauðsyn krefur, skuli ekki teljast til
vinnutíma eins og kemur fram í vefriti viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins.

Í eldri vinnutímatilskipuninni eru hugtökin ?vinnutími? og ?hvíldartími? skilgreind en ekki er tekið á því í hvorn flokkinn bakvaktir falla. Ólíkar
túlkanir hafa gilt í aðildarríkjunum um bakvaktir. Ágreiningur um þetta efni fór fyrir Evrópudómstólinn þar sem niðurstaðan varð að bakvaktir teldust til
vinnutíma starfsmanna. Þessi niðurstaða hefur töluverðar breytingar í för með sér fyrir vaktaskipulag á vinnustöðum, til dæmis innan heilbrigðisstofnana.

Nýja tilskipunin tekur á þessu vandamáli með því að skilgreina sérstaklega bakvaktir (on-call time), þar sem ekki er krafist vinnuframlags, sem hvíldartíma. Samhliða þessum breytingum leggur framkvæmdastjórnin til að í þeim tilvikum, þar sem atvinnurekanda er skylt að veita sérstakan hvíldartíma vegna vinnuálags, þurfi það ekki að gerast þegar í stað
eftir langa vakt heldur innan 72 tíma frá því að vaktinni lýkur.