Sveigjanleiki opinberra fjármála er mun meiri hér á landi en á hinum Norðurlöndunum. Í nýútkominni skýrslu matsfyrirtækisins Standard & Poor's (S&P) er reiknuð vísitala fyrir sveigjanleika opinberra fjármála í 28 Evrópulöndum, segir greiningardeild Glitnis.

?Vísitalan tekur mið af getu stjórnvalda til að bregðast við óhagstæðri þróun hagkerfisins og ytri áföllum með breytingum á skattastefnu og opinberum útgjöldum. Tilgangur þessa kvarða er að slá mati á líkur þess að viðkomandi lönd lendi í vanda með greiðslubyrði opinberra skulda," segir greiningardeildin.
Ísland skipar fimmta sætið af 28 löndum. Þau sem tróna á toppnum eru Kýpur, Sviss, Írland og Eistland. Hin Norðurlöndin voru ekki ofarlega á listanum. Noregur er í 20. sæti, Finnland í 22. sæti, Svíþjóð í 24. sæti og Danmörk í 25. sæti. Þýskaland, Austurríki og Belgía eru í þremur síðustu sætunum.

?S&P segja þó ólíkar ástæður að baki lágri einkunn Norðurlandanna annars vegar og annarra ríkja vesturhluta meginlands Evrópu hins vegar. Í tilfelli Norðurlandanna felist vandinn fyrst og fremst í víðtækri hárri skattbyrði, en meðal þeirra landa sem sunnar liggja og hljóta lága einkunn sé orsökin fyrst og fremst skortur á sveigjanleika í opinberum útgjöldum. S&P-menn benda hins vegar á að í þeim löndum sem betur vegnar samkvæmt þessum kvarða fylgist að sveigjanleiki jafnt á tekju- og útgjaldahlið opinberra fjármála," segir greiningardeildin.

Skýrsla S&P rímar við skrif um íslenska ríkið því oft er talað um hæfileika þess til þess að bregðast við skakkaföllum í efnahagslífinu.

?Sveigjanleiki opinberra fjármála, sem og hagkerfisins í heild, er einmitt einn þeirra þátta sem auka líkur á að lending hagkerfisins eftir þenslu undanfarinna missera verði tiltölulega mjúk. Athygli vekur einnig að ýmsum hinna nýfrjálsu ríkja Austur-Evrópu vegnar mun betur á kvarða matsfyrirtækisins heldur en hinum rótgrónu lýðræðisríkjum á vesturhluta meginlandsins," segir greiningardeildin.

Greiningardeildin segir skýringuna meðal annars að leita í viðleitni ríkisstjórna þessara ríkja til þess að læra af mistökum frændþjóðanna í vestri og skapa tiltölulega einföld skattkerfi með lágri skattprósentu. ?Þannig færðist Slóvakía til að mynda upp um þrjú sæti á listanum milli ára í kjölfar lækkunar á virðisaukaskatti og tekjuskatti fyrirtækja þar í landi."