*

laugardagur, 16. október 2021
Innlent 28. júní 2021 18:39

Sveigjanleiki skilað auknum tekjum

Velta Eldum rétt jókst töluvert í faraldrinum en félagið er nú farið að bjóða aukinn sveigjanleika í vali og sendir orðið um allt land.

Ritstjórn
Kristófer Júlíus Leifsson og Valur Hermannsson eru meðal eigenda Eldum rétt.
Haraldur Guðjónsson

Velta Eldum rétt jókst um rúmlega helming á síðasta ári, úr um 738 milljónum í ríflega 1,1 milljarð króna. Samkomutakmarkanir á vormánuðum síðasta árs leiddu til aukinnar eftirspurnar eftir þjónustu félagsins. Síðasta haust kynnti félagið svo nýjungina „Veldu rétt" sem hefur notið vinsælda og þá hefur fyrirtækið hafið að senda matarpakkana um allt land.

„Eftir mestu törnina í tengslum við samkomutakmarkanirnar síðasta vor byrjuðum við aftur að einbeita okkur að Veldu rétt, nýjung sem við hófum að bjóða upp á síðasta haust og hefur gengið vonum framar," segir Valur Hermannsson, einn eigenda Eldum rétt.

Hann útskýrir að með tilkomu Veldu rétt geti viðskiptavinir sett saman sinn eigin matseðil úr úrvali rétta. „Viðskiptavinurinn getur líka ráðið dagafjölda, hvort viðkomandi taki tvo, þrjá, fjóra eða fimm daga. Með Veldu rétt höfum við getað bætt við nýjum og spennandi réttum sem hentuðu ekki alveg í gamla fyrirkomulaginu, eins og til dæmis hægeldaður matur, dýrt kjöt og fleira spennandi."

Nýjungin hefur leitt til þess að meðalfjöldi daga hefur aukist en einföldustu réttirnir eru eftir sem áður vinsælastir.

„Fólk vill djúsí mat, pasta og brauð er til dæmis alltaf mjög vinsælt. Einfaldir réttir sem taka stuttan tíma í matreiðslu eru alltaf bestu réttirnir, það er svo næs að þurfa ekki að vera ekki fastur of lengi í matreiðslunni. Ég er alltaf með þetta fimm daga vikunnar og gæti ekki lifað án þess."

Fleiri gestakokkar í haust

Eldum rétt bauð nýverið upp á rétt sem var útbúinn af kokkinum Þráni Frey Vigfússyni, eiganda veitingastaðarins Zümac. Valur segir Eldum rétt ætla að halda áfram samstarfi við gestakokka í haust.

„Við munum fá mjög flotta kokka til að gera einn rétt og kynna með okkur, sem við seljum síðan í samstarfi við þá. Við byrjuðum með Þráni á Zümac um daginn og svo verða fleiri spennandi gestakokkar í haust."

Huga að umhverfinu

Eldum rétt hefur verið í átaki innanhúss hvað varðar nýtingu og endurvinnslu. „Við höfum unnið með Klöppum við að mæla það sorp sem fer frá okkur og kolefnisspor okkar. Kolefnisspor okkar er mjög lágt og við erum að vinna í því að kolefnisjafna alla starfsemi okkar á síðasta ári. Við ætlum okkur jafnframt að gera enn meira á því sviði, okkur langar til dæmis að gera miklu meira í sambandi við trjárækt sem okkur þykir bæði spennandi verkefni og ódýrt í sjálfu sér miðað við hvað það gefur af sér," segir Valur en bætir við að helsta áskorunin felist í pakkningunum en fyrirtækið vilji leita leiða til þess að gera þær umhverfisvænni í framtíðinni.

Stikkorð: Eldum rétt