Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag Nordic Visitor af 12,7 milljóna króna kröfu Arion banka. Deilt var um hvor aðilinn ætti að bera ábyrgð á fjársvikum sem olli fjártjóni fyrir bankann.

Málsatvik voru þau að útlendingur sem kallaði sig Elijah Okeshola fékk starfsmann Arion banka til þess að leggja tékka að andvirði 84.600 evra inn á reikning Nordic Visitor og svo starfsmenn Nordic Visitor til að leggja stóran hluta þeirrar fjárhæðar, eða 77.548 evrur, inn á reikning í hans nafni hjá Dubai Islamic Bank. Þaðan hurfu svo fjármunirnir.

Okeshola pantaði ferð hjá Nordic Visitor og sendi fyrir henni ávísun til Arion banka. Bað hann bankann um að greiða andvirði tékkans inn á reikning Nordic Visitor. Þegar greiðslunni var lokið lét starfsmaður Nordic Visitor bankann vita að Okeshola hefði greitt alltof háa fjárhæð.

Fram kemur í dómi héraðsdóms að meðhöndlun bankans á tékkanum hafi ekki verið í samræmi við það sem almennt tíðkaðist. Þannig hefði andvirði tékkans verið lagt inn á reikning Nordic Visitor án þess að beiðni þar um hefði borist frá félaginu sjálfu. Þá hefði starfsmaður Nordic Visitor upplýst starfsmann Arion banka um að til stæði að endurgreiða Okeshola fjárhæðina og spurði af því tilefni sama starfsmann hvort hann gæti treyst því að fjárhæðin færi ekki aftur út af reikningnum. Starfsmaður Arion banka svaraði um hæl að upphæðin yrði ekki bakfærð enda væri búið að framselja tékkann.

Segir í dóminum að í ljósi þess aðstöðumunar sem var með aðilum hafi verið brýn ástæða til þess að starfsmaður Arion banka varaði Nordic Visitor við því að bankinn ætti eftir að innleysa tékkann ytra og minnti hann á ábyrgð hans á tékkanum, hafi sú ábyrgð verið til staðar. Það hafi þó ekki verið gert.

Var Nordic Visitor því sýknað af kröfum Arion banka.