Sextugur karlmaður hefur verið ákærður fyrir að svíkja út tæpar fjörutíu milljónir króna út af kreditkorti Magnúsar Ármann samkvæmt frétt á vef RÚV. Þar segir að níu mánuður hafi liðið frá því maðurinn tók fyrst út af kortinu þar til Magnús áttaði sig á þjófnaðinum.

Samtals er um að ræða 32 færslur sem alls hljóað upp á 40 milljónir króna. Maðurinn rak meðferðar- og ráðgjafarfyrirtæki og notaði posa í eigu fyrirtækisins til að handskrá færslurnar til að komast yfir féð. Fyrsta úttektin var í janúar 2007 og var upp á 1,6 milljónir. Hann tók út nokkrar milljónir á mánuði þar til í september þegar hann tók út 5,5 milljónir áður en upp komst um hann og hann stöðvaður.

Í frétt RÚV segir að við aðalmeðferð hafi komið fram að samkvæmt gögnum hafi maðurinn komist yfir kreditkortanúmer Magnúsar á Strawberries í Lækjargötu. Á heimasíðu Strawberries kemur fram að staðurinn er kampavínsklúbbur þar sem boðið er upp á kokteil bar, go-go dansara og VIP herbergi. Maðurinn neitaði því að og sagði að Magnús hefði heimilað úttektirnar. Málið heldur áfram fyrir dómstólum í næstu viku í aðalmeðferð málsins. Þá mun Magnús Ármann mæta fyrir dóminn.

Kreditkortanotkun var til rannsóknar

Í þessu samhengi er áhugavert að rifja upp að Magnús Ármann var á meðal þeirra sem voru til rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra vegna notkunar á erlendum greiðslukortum hér á landi. Greiðslukort Magnúsar voru notuð fyrir allt að 40 milljónir á einu ári eins og kom fram í ágúst 2009 í frétt Vísir.is um málið.

Í fréttinni kemur fram að ríkisskattstjóri vísaði málum 30 einstaklinga til skattrannsóknarstjóra. Bryndís Kristinsdóttir, skattrannsóknarstjóri, staðfesti þá við fréttastofu Vísir.is að rökstuddur grunur leiki á að þeir hafi nær allir komið verulegum upphæðum undan skattayfirvöldum á tímabilinu júlí 2006 til júní 2008.