Karlmaður á fertugsaldri var í Héraðsdómi Norðurlands eystra í dag dæmdur í átján mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir fjölmörg fjársvik sem framin voru í fyrra. Hafði maðurinn hátt í 700 þúsund krónur upp úr krafsinu.

Meðal þess sem maðurinn seldi, án þess að eiga, voru iPod nano 4, miðar á tónleika Dimmu í Bæjarbíói í Hafnarfirði, fjöldinn allur af ímynduðum nagladekkjum, Playstation 4 leikjatölva og munir í matarstell. Þá hafði hann einnig til sölu ímynduð rúm, gírkassa í Toyota-bíl og bifreið af tegundinni Renault Kangoo. Alls voru ákæruliðirnir 22 talsins.

Maðurinn kom fyrir dóm og játaði sök. Hann á að baki brotaferil sem teygir sig aftur til ársins 2006 en sá hefur að geyma skjalafals, rán, fjársvik og þjófnað svo nokkuð sé upp talið. Í maí 2018 var honum veitt reynslulausn á 455 daga eftirstöðvum refsingar sinnar en með úrskurði í lok síðasta árs var honum gert að afplána eftirstöðvarnar eftir að upp komst um fjársvikin.

Auk refsingarinnar var maðurinn dæmdur til að endurgreiða þremur brotaþolum fjárhæðirnar sem hann hafði svikið af þeim en ekki voru fleiri einkaréttarkröfur í málinu. Þá var hann dæmdur til að greiða allan sakarkostnað, rúmlega 950 þúsund krónur.