Karlmaður á fertugsaldri var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur í tólf mánaða fangelsi fyrir ýmis hegningarlagabrot. Meðal annars var hann dæmdur fyrir fjársvik en hann sveik út far með leigubifreið.

Umrætt brot hófst á föstudaginn langa á þessu ári og lauk aðfararnótt laugardagsins á eftir. Maðurinn var þá staddur í Keflavík en ákvað að fara með leigubíl alla leið til Hafnar í Hornafirði. Hann kom sér undan því að greiða fargjaldið en hann tjáði leigubílstjóranum að þriðji maður myndi gera það. Umrædd ferð átti að kosta 220 þúsund krónur.

Auk þessa var maðurinn dæmdur fyrir ýmis ofbeldisbrot sem áttu sér stað í fyrra og í kringum páskahátíðina á þessu ári. Þá var hann dæmdur fyrir brot gegn nálgunarbanni og fyrir að brjóta tvær rúður í húsnæði lögreglunnar á Hverfisgötu.

Maðurinn hefur sætt gæsluvarðhaldi frá í lok apríl til að forða því að hann bryti oftar af sér. Hann var sem fyrr segir dæmdur í tólf mánaða óskilorðsbundið fangelsi en tímalengd gæsluvarðhaldsins dregst frá. Þá var hann dæmdur til að greiða einum brotaþola líkamsárásar sinnar 920 þúsund í miskabætur. Að endingu þurfti hann að greiða sakarkostnað, alls 930 þúsund krónur.